Ísafjarðarbær: vilja yfirtaka rekstur íþróttamannvirkja á Torfnesi

Íþróttahúsið á Torfnesi.

Íþróttahreyfingin á Ísafirði setti fram á samræðsfundi með Ísafjarðarbæ tillögu um breytta rekstrarleið íþróttamannvirkja á Torfnesi. Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs fyrir bæjarráð að íþróttahreyfingin óski eftir því að lagt verði kostnaðarmat á að íþróttahreyfingin taki yfir rekstur íþróttamannvirkja á Torfnesi.

Gert er ráð fyrir að þau íþróttafélög sem eru notendur íþróttasvæðisins stofni rekstrarfélag sem Ísafjarðarbær myndi gera rekstrarsamning við um reksturinn. Forsvarmenn í íþróttahreyfingunni sjá fyrir sér að stofna vinnuhóp sem myndi hanna frekar útfærslu á tillögunni í samstarfi við starfsfólk skóla- og tómstundasviðs.

Í minnisblaðinu segir að til eru sambærilegar útfærslur hjá öðrum sveitarfélögum t.d. á Akureyri þar sem þau greiða rekstrarframlag til íþróttafélaga til þess að tryggja reksturinn.
Útfærslan yrði unnin í samstarfi við forstöðumann íþróttamannvirkja, íþróttahreyfinguna í Ísafjarðarbæ, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs og íþrótta- og æskulýðsfulltrúa ásamt skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd.

Bæjarráð óskaði eftir því að íþróttahreyfingin útfæri hugmyndina betur og leggi hana fram til umsagnar í skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd.

DEILA