Eiríkur Örn og Dagur evrópskra rithöfunda

Í tilefni af Degi evrópskra rithöfunda, 25. mars, stendur EWC – European Writers’ Council – fyrir upplestrum um álfuna alla.

Á Ísafirði er það Eiríkur Örn Norðdahl sem kemur fram á Bókasafninu í dag kl. 17:00 og les upp valin ljóð úr bókum sínum, lítur undir húddið og segir frá tilurð þeirra, ætlaðri virkni, inntaki og sköpulagi.

Eiríkur Örn Norðdahl hefur fengist við tilraunaljóðlist í ríflega 20 ár og gefið út á bilinu 8-10 ljóðabækur (eftir því hvernig maður telur og hvað). Á þessum tíma hefur hann verið reglulegur gestur á ljóða- og listahátíðum um víða veröld og hafa ljóð hans birst í þýðingu á tugum tungumála.

Auk ljóðabóka hefur Eiríkur gefið út safn ritgerða og fyrirlestra á ensku um tilraunaljóðlist og ljóðagerð – Booby, Be Quiet (Poesia, 2011) – og ýmis ljóðverk á netinu, að ónefndum skáldsögum, sem notið hafa vinsælda bæði hérlendis sem erlendis. Árið 2010 vann ljóðastuttmynd hans Höpöhöpö Böks til sérstakra verðlauna á Zebra Poetry Film Festival í Berlín og fyrir ljóðabókina Óratorrek hlaut hann Menningarverðlaun DV árið 2017.

Þá hefur hann þýtt ljóð af miklum móð í gegnum tíðina – meðal annars safn ljóða Allens Ginsberg, Maíkonungur, og Hvítsvítu eftir sænska skáldið Athenu Farrokhzad – og ritstýrt bókum um ljóðlist, þ.á m. Af ljóðum, Af steypu og norska ljóðasafninu Dikteren roper. Eiríkur Örn var einn af stofnmeðlimum ljóðasamlagsins Nýhil og stofnaði og stýrði Alþjóðlegu ljóðahátíðinni 2005-2006.

DEILA