Ísafjörður: dagur tónlistarskólanna á laugardaginn

Mynd sem tekin var á æfingu fyrir dag tónlistarskólanna. Mynd: Tónís.

Dagur tónlistarskólanna 2024 verður haldinn hátíðlegur með tónlistarveislu í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 24. febrúar kl. 14. Fjölbreytt dagskrá og aðgangur ókeypis.

Að loknum tónleikunum verður kaffisala Skólakórs skólans í safnaðarheimilinu til styrktar Danmerkurferð skólakórs Tónlistarskólans sem er á leið á stórt norrænt kóramót í Danmörku í byrjun maí í vor.
Fjölbreytt kaffihlaðborð. Posi á staðnum.

Dagur Tónlistarskólanna

Um 90 tónlistarskólar eru á Íslandi og standa þeir fyrir fjölbreyttu og öflugu skólastarfi. Dagur tónlistarskólanna er haldinn í febrúar ár hvert til heiðurs Gylfa Þ. Gíslasonar sem var menntamálaráðherra á árunum 1956–1971. Gylfi hefur gjarnan verið kallaður „faðir íslenskra tónlistarskóla“ en hann kom því í gegn í ráðherratíð sinni að sveitarfélög sem hefðu hug á því að stofna tónlistarskóla fengju til þess styrk úr ríkissjóði sem næmi ákveðnum hluta launakostnaðar. Síðar var þessum lögum breytt á þann veg að launastyrkur ríkisins var aukinn, sem varð sveitarfélögum enn meiri hvatning til að koma tónlistarskólum á fót og þá fjölgaði þeim umtalsvert. Íslenskt tónlistarlíf og -menntun mun alla tíð búa að framsýni Gylfa Þ. Gíslasonar og áhuga hans á aukinni og markvissri tónlistarmenntun þjóðarinnar.

DEILA