ÁRSRIT SÖGUFÉLAGS ÍSFIRÐINGA KOMIÐ ÚT

Forsíðumynd Ársrits Sögufélags Ísfirðinga 2022-2023 er frá Hlöðuvík í Sléttuhreppi með Hælavíkurbjarg í baksýn. Myndina tók Sigrún Halla Tryggvadóttir

Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 2022-2023 er nýkomið út. Það er 59. árgangur ritsins, sem félagið hefur gefið út frá árinu 1956. Að venju er þar að finna fjölbreyttan fróðleik sögu Ísafjarðar og Ísafjarðarsýslna. Níu ritgerðir og greinar birtast í Ársritinu að þessu sinni og eru allar prýddar vönduðum ljósmyndum. Þar á meðal er ljósmynd af frönskum vísindamönnum sem heimsóttu Ísafjörð árið 1913.

Arnheiður Steinþórsdóttir birtir ritgerð um Eyrarannál sem Magnús sýslumaður Magnússon ritaði eftir miðja 18. öld og afstöðu hans til galdramála sem upp komu í héraðinu á hans tíð. Önnur athyglisverð grein um dauðans alvöru fjallar um staursetningu látinna manna við sérstakar aðstæður og er hún frá árinu 1934, rituð af séra Runólfi Magnúsi Jónssyni presti á Stað í Aðalvík.

Guðfinna M. Hreiðarsdóttir ritar grein um bakarí og bakarameistara sem störfuðu á Ísafirði frá 1870-1910, þegar kaupstaðurinn var í miklum og örum vexti og þilskipaútgerð, verslun og iðnaður dafnaði. Um þann tíma fjallar einnig grein Lýðs Björnssonar um stofnun Ísafjarðarkaupstaðar árið 1866 og misheppnaða tilraun til að sameina kaupstaðinn og Eyrarhrepp á ný árið 1917.

Um læknamál á Ísafirði ritar Sigurður Pétursson grein sem nefnist „Löðrungur við læknastétt þessa lands.“ Hún fjallar um ráðningu nýs héraðslæknis árin 1917-1919 og blaðaskrif sem urðu vegna hennar. Þeir Eiríkur Kjerúlf og Vilmundur Jónsson þóttu álitlegastir til starfans, en afstaða til vínbanns og stjórnmála blönduðust mjög í ráðningarmálin.

„Helgireitur æskunnar“ nefnist ritgerð Kobrúnar Soffíu Arnfinnsdóttur um upphaf skólahalds í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þar segir frá tildrögum að stofnun skólans árið 1934 og fyrsta skólastjóranum Aðalsteini Eiríkssyni sem stýrði skólanum í áratug. Ennfremur greinir þar frá skólabrag, starfsfólki, byggingum, sundkennslu og gróðurhúsaræktun í Reykjanesi.

Leifur Reynisson ritar um systur tvær frá Arnarnesi í Mýrahreppi, Maríu og Þorlaugu Mósesdætur, sem fæddust laust fyrir aldamótin 1900 og lifðu tíma mikilla samfélagsbreytinga. María varð hjúkrunarfræðingur við Laugarnesspítala og fluttist til Kanada, en Þorlaug glímdi lengi við eftirköst Spænsku veikinnar 1918 og vann sem vinnukona. Grein Leifs er framhald fyrri greina hans um ævi og örlög fjölmenns systkinahóps úr Mýrahreppi við upphaf nýrrar aldar.

Þannig veitir Ársrit Sögufélags Ísfirðinga innsýn í líf og störf íbúa á Ísafirði og í Ísafjarðarsýslum á fyrri tíð. Afgreiðslumaður ritsins er Magni Örvar Guðmundsson, Seljalandi Ísafirði og formaður félagsins er Björgvin Bjarnason Bolungarvík. Áhugasömum er bent á að snúa sér til þeirra til að ganga í félagið og fá þar með Ársritið sent heim. Fyrri árgangar fást jafnramt gegn vægu gjaldi.

Stjórn Sögufélags Ísfirðinga skipa: Björgvin Bjarnason Bolungarvík, Guðfinna M. Hreiðarsdóttir og Arnheiður Steinþórsdóttir Ísafirði, Ólafur Sigurðsson Reykjavík og Sigurður Pétursson Laugarvatni.

DEILA