Bylgjan og visir.is: dregið í land

Breytt frétt á visir.is.

Bylgjan og visir.is hafa leiðrétt frétt sína frá síðasta laugardag þar sem sagði að íslenski Atlantshafslaxinn væri í stórfelldri útrýmingarhættu og segir núna að stofninn sé nærri útrýmingarhættu. Bent var á þessa villu á bb.is í gær. Á þessu tvennu er reginmunur því það að vera nærri útrýmingarhættu þýðir að stofninn er ekki í útrýmingarhættu.

Það er stór munur á því að staðhæfa að laxastofninn sé í stórfelldri útrýmingarhættu og að hann sé ekki í útrýmingarhættu.

Tilefni fréttarinnar var nýr válisti Alþjóðlegu Náttúruverndarsamtakanna, IUCN.  Þar segir í almennu mati á stöðu Atlantshafslaxastofnsins að hann sé útbreiddur á norðanverðu Atlantshafi og ekki sé litið svo á að tilvist hans sé ógnað, hins vegar séu ýmislegt sem þrengi að honum og hafi valdið því að stofninn hafi minnkað síðustu 15 árin og þannig færst nær hættuástandi þótt það sé ekki komið að því.

Ísland: undirstofninn á norðanverðu landinu ekki í hættu

IUCN birtir á vefsíðu sinni einnig mat sitt á einstökum undirstofnum Atlantshafslaxins sem taldir eru vera 18. Á Íslandi eru gefnir upp tveir undirstofnar, annar á norðanverðu landinu og hinn sunnanlands. Hér að neðan er kort af fyrri stofninum. Það nær frá Borgarfirði, vestur og norður um land að norðausturhorni landsins. Athyglisvert er að þetta er það svæði sem áhrifa laxeldis í sjókvíum gætir einna mest með sleppningum og laxalús. Matið er unnið í febrúar 2022 og birt í þessum mánuði.

Mat samtakanna á ástandi þessa undirstofns Atlantshafslaxins er það sama og stofnsins í heild – near threatened eða nálægt því að vera í hættu sem þýðir að stofninn er ekki talinn í hættu.

Stofninn er talinn hafa minnkað um 25% á árabilinu 2006-2020 en búsvæði laxins í ánum er talið í góðu ásigkomulagi og ekki hnignandi. Upplýsingar um minnkandi stofn eru byggðar á tölum um stangveiði sem hefur verið mjög sveiflukennd á þessu árabili.

DEILA