Sund sem menningararfur?

Blábankinn á Þingeyri.

Í þessari viku verða haldnir þrír fyrirlestrar sem fjalla um sund.

Sigurlaug Dagsdóttir þjóðfræðingur flytur erindin en hún er jafnframt verkefnastýra vefsins Lifandi hefðir hjá  Stofnun Árna Magnússonar. Í erindum sínum mun Sigurlaug segja frá skráningu sundlaugamenningar inná vefinn og lýsa þeim undirbúningi sem nú  er í gangi varðandi tilnefningu sundlaugamenningarinnar til UNESCO.
 Unnendum sundsins og öðrum áhugasömum er einnig boðið að taka þátt í umræðum lokinni kynningunni og ræða sína eigin sýn á sundlaugamenningu Íslendinga.

Sigurlaug mun flytja erindin í Háskólasetri Vestfjarða miðvikudaginn 22. nóvember og á Bryggjukaffi á Flateyri sama kvöld. Fimmtudaginn 23. nóvember stígur Sigurlaug á stokk í Blábankanum á Þingeyri og öll eru hjartanlega velkomin.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að skráningu á sundlaugamenningu á Íslandi inná vefinn Lifandi hefðir. Þann 28. október á alþjóðlegum degi sundsins var sú skráning sett á vefinn, hana má sjá hér: https://lifandihefdir.is/lifandi-hefdir/sundlaugamenning-a-islandi-hefdin-ad-fara-i-sund/

Vefurinn Lifandi hefðir er yfirlitsskrá á Íslandi yfir óáþreifanlegan menningararf vegna aðildar að samningi UNESCO frá 2003 um varðveislu menningarerfða. Samningurinn öðlaðist gildi hér á landi 2006.  Vefnum er ætlað að vera vettvangur samfélaga og hópa til að miðla lifandi hefðum sem það hefur þekkingu á. 

Sundlaugamenning á Íslandi er dæmi um hversdagsmenningu sem einnig er útbreidd hefð, sem margir á Íslandi stunda með einhverjum hætti í gegnum lífið en oft ólíkt eftir ævitímabilum eða aðstæðum. Sundlaugahefðin gegnir misjöfnu hlutverki í lífi fólks og er ekki síst heillandi vegna þess hve fjölbreytt hún er en um leið einstaklingsbundin. 

Tilgangur þess að skrá sundlaugamenningu á Íslandi inná vefinn Lifandi hefðir er ekki síst að miðla upplýsingum um hefðina, skapa umræður og auka þekkingu á henni. Einnig er þetta fyrsta skrefið í undirbúningi að mögulegri tilnefningu hefðarinnar til UNESCO, á lista yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns en nú fer fram undirbúningur að slíkri tilnefningu. 

DEILA