Skuld heimildamynd: sýnd á þriðjudaginn í Ísafjarðarbíó

Þriðjudaginn 21. nóvember kl 20:00 verður heimildamyndin „Skuld“ sýnd í Ísafjarðarbíó í samstarfi við 66°Norður og Háskólasetur Vestfjarða. Viðburðurinn er í tilefni þess að 21. nóvember ár hvert er Alþjóðlegur dagur sjávarútvegs (World Fisheries Day) haldinn hátíðlegur, þar sem dugnaði fólks sem starfar við sjávarútveg um allan heim er fagnað.

Aðgangur er ókeypis. Að lokinni sýningu verður opið samtal í formi “spurt og svarað” með leikstjórunum, þeim Rut og Kristjáni Torfa. Skuld er heimildamynd um strandveiðivertíð á trillunni Skuld, sem Rut og Kristján gera út frá Rifi á Snæfellsnesi. Myndin hefur fengið mjög góðar viðtökur og hlaut m.a. hvatningarverðlaun dómnefndar á Skjaldborg heimildamyndahátíð fyrr á árinu.

„Hvatningarverðlaun Skjaldborgar 2023 hlýtur mynd sem dómnefndarmeðlimum þótti sérstaklega hlý, fyndin og falleg. Mynd sem opnar glugga inn í heim smábátaeigenda og handfæraveiða á persónulegan og heillandi máta. Höfundur beitir sterkri sjónrænni nálgun og fer einstaklega vel með hlutverk sitt allt í kring um myndavélina svo úr verður allsherjar
óður til ástarinnar, framtaksseminnar – og strandveiða“

Skuld trailer: https://www.youtube.com/watch?v=gPC62ECoSLE
Þorskbæn – Kristján Torfi & Trillukallakór: https://www.youtube.com/watch?v=wqhjmh01pHA
Skuld á facebook: https://www.facebook.com/skulddocumentary

DEILA