Vesturbyggð: framlegð of lág miðað við skuldastöðu

Smábátar í höfninni á Vatneyrinni á Patreksfirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga gerir athugasemd við framlegð sveitarsjóðs og segir hana of lága miðað við skuldastöðu. Framlegðin er 7% en ætti að vera 11% miðað við viðmið eftirlitsnefndarinnar.

Í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 er bráðabirgðaákvæði sem heimilar sveitarstjórn að víkja frá skilyrðum um jafnvægisreglu og skuldareglu út árið 2025, en eftirlitsnefndin vill benda sveitarstjórn á að árið 2026 þarf að uppfylla framangreind skilyrði.

Í bókun bæjarráðs Vesturbyggðar segir að Vesturbyggð uppfylli öll lágmarksviðmið fyrir A- og B-hluta en fyrir A-hluta er rekstrarniðurstaða neikvæð. „Jafnframt ætti framlegð sem hlutfall af tekjum að vera 11% fyrir A-hluta miðað við 107% skuldahlutfall. Framlegðin samkvæmt ársreikningi 2022 er 7% sem er fyrir neðan lágmarksviðmið nefndarinnar. Aftur á móti er veltufé frá rekstri fyrir ofan lágmarksviðmið í bæði A-hluta og A – og B-hluta.“

Þá segir bæjarráðið að sveitarfélagið uppfyllir öll fjárhagsleg skilyrði sveitarstjórnarlaganna. Bréfið sé almennt bréf sem sent var til allra sveitarfélaga sem uppfylltu ekki einhver af þeim lágmarksviðmiðum sem EFS hefur sett sér. 

DEILA