Knattspyrna: Vestri upp í Bestu deildina

Sigrinum fagnað í leikslok.

Karlalið Vestra vann á laugardaginn Aftureldingu 1:0 í hreinum úrslitaleik um sæti í Bestu deildinni á næsta ári. Það var Iker Hernandez Ezquerro sem skoraði markið undir lok fyrri hálfleiks framlengingar eftir góða sendingu frá Sergine Fall.

Úrslitin voru verðskulduð þar sem Vestri var betra liðið og stjórnaði leiknum lengst af. Vestri átti nokkur hættuleg færi og gat gert út um leikinn í venjulegum leiktíma.

Liðið byrjaði mótið í vor fremar rólega og það var ekki fyrr en í byrjun júní í fimmtu umferð að fyrsti sigurinn kom 2:0 gegn Njarðvík. En smátt og smátt sótti liðið í sig veðrið og það vann síðustu fimm leikina í deildinni og síðasta tapið var 12. ágúst í 16. umferðinni gegn sama liði, Njarðvík.

Í umspilinu mætti Vestri liðið Fjölnis og vann á Ísafirði og gerði jafntefli í Grafarvoginum og sló þar með Fjölni út úr keppninni og vann sér sæti í úrslitaleiknum þar sem Afturelding var lögð að velli.

Sjö sigrar og eitt jafntefli í átta síðustu leikjunum og liðið er komið upp í Bestu deildina.

Ísfirðingar undir merki ÍBÍ voru tvisvar í eftstu deild í knattspyrnu, fyrst árið 1962 og svo aftur 1982 og 1983.

Nærri þrjú þúsund manns voru á leiknum og bæði liðin vel studd en greinilegt var að Vestfirðingarnir voru bæði fjömennari og háværari allan leikinn.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson forstjóri Kerecis var mættur á leikinn.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA