Fljótavík: neyðarsendir fór í gang

Tunga í Fljótavík. Mynd: Mats Wibe Lund.

Mikill viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslunni, björgunarsveitum og lögreglu vegna neyðarboðs sem kom frá eins hreyfils flugvél í Fljótavík á þriðja tímanum í dag. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk neyðarboð frá vélinni klukkan 14:39. Vélinni var flogið frá Reykjavík til Fljótavíkur í morgun og hafði flugmaðurinn staðfest komu til Fljótavíkur um hádegisbil. Rúmum tveimur og hálfum tíma síðar fór neyðarsendir vélarinnar í gang í Fljótavík og ekki tókst að ná sambandi við flugmann vélarinnar. Þá var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kölluð út á mesta forgangi sem og björgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar og lögreglan á Vestfjörðum. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var sömuleiðis virkjuð.

Klukkan 15:15 náðist samband við flugmann vélarinnar sem hafði verið að færa vélina og við það fór neyðarsendir hennar í gang. Allt viðbragð var þá afturkallað.

DEILA