Ég heiti Hilda og ég segi takk

Ég heiti Hilda og ég á heima á Ísafirði. Þar er gott fólk.

Ja, eiginlega heiti ég Anđelka Ragnhildur og er Ólafsdóttir en allir kalla mig Hildu. Ég líka. Ég á, eins og margir hér á Íslandi, stundum í erfiðleikum með að bera fram fyrra nafn mitt og reyndar líka það síðara ef út í það er farið. Sjáðu nú til, ég er bara þriggja ára og á margt eftir ólært. Eitt af því sem ég á eftir að læra er auðvitað að skrifa. Verð ég því að játa að fjölskylda mín leggur mér hér orð í munn eða eiginlega orð á blað. Ég væri ekki alveg fær um að tjá mig á þennan hátt. Ekki að ég sé ekki skýr, ég hef bara ekki lært það enn. Það er ótalmargt sem ég hef ekki lært. Ekki enn. Eiginlega er ég bara nokkuð venjuleg stúlkukind (pabbi notar þetta orð, ég myndi aldrei nota það).

Eins og lög gera ráð fyrir hef ég gaman af því að leika mér og reyni að leika mér eins oft og mikið og ég mögulega get. Mér finnst líka gaman að dansa og dilla bossa og syngja. Það mætti alveg segja að ég væri orkumikil og léti mikið fyrir mér fara. Fjölskylda mín, aðallega systkini mín, vilja meina að ég sé frek og skapmikil og að allt sé látið eftir mér. Slíkt er bábilja (pabbi segir það). Slíkt er glupost (mamma segir það). Ég er ákveðin. Þið vissuð að von væri á þessu, ekki satt? Í fjölskyldu minni er ég örverpið. Ég er bæði yngst og svo er ég satt best að segja ekkert voðalega há í loftinu. Þarf ég því að láta þeim mun meir á mér bera. Er það ekki bara eðlilegt? Er ekki fyllilega eðlilegt að örverpið böggi systkini sín og atist í þeim?

Systkini mín eru engu að síður mjög hrifin af mér. Já, þau elska mig öll sem eitt. Og ég vil ekki vera hrokafull en ég meina sjáið mig bara. Ég er hreint ansi sæt svo ekki sé meira sagt og ég veit að ég framkalla oft bros á varir fólks. Stundum af því að ég er skemmtileg, stundum af því bara. Fjölskylda mín kýs að trúa því að ég sé einstök sem ég auðvitað er. Mér finnst líka gaman að vera miðpunktur athygli og er ekkert svo oft að pæla í öðrum. Ég á eftir að læra að aðrir þurfa líka sitt pláss. Með tíð og tíma mun ég auðvitað líka læra að öll börn séu einstök, og að öll börn geti framkallað af því bara bros. Af því bara bros er best.

Eitt er það þó sem gerir mig öðruvísi. Öðruvísi en flest börn. Guði sé lof er raunin sú. Ég er veik. Veikindin sjást samt ekki á mér lengur. Ég ber sjúkdóminn ekki utan á mér eins og einu sinni. Þetta einu sinni er fyrir mér eins og hundrað ár en fyrir fjölskyldu mína eins og það hafi verið í gær. Þá var ég nauðasköllótt og oft og tíðum mjög veikluleg. Tölum ekki meira um það. Reyndar verð ég að segja að hárleysið var ekkert vandamál. Ekki fyrir mig. Það var örugglega erfiðara fyrir mömmu og pabba. Ég er ekkert að pæla í ytra útliti. Það kemur kannski seinna. Hver veit?

Eitt er það þó sem angrar mig. Ég er heima öllum stundum. Eða því sem næst. Það er þó miklu betra að fá að vera heima en að þurfa að vera fyrir sunnan á spítala. Fara á spítala inn og út. Hvað þá í Svíþjóð þótt fólkið þar hafi verið frábært. Ég þurfti nefnilega að fara með sjúkraflugi þangað. Það var sko skrýtið að vera í Svíþjóð og satt best að segja ógnvænlegt. Mjög gott að ég veit ekki, skil ekki enn hve ógnvænlegt það raunverulega var. Ég er svo lítil að ég fatta það ekki. Þess vegna ber ég vonandi ekki mörg ör á sálinni í framtíðinni þótt líklega beri ég þess einhver ytri merki. Mest bitnar þetta að líkindum á mömmu og pabba og ef til vill systkinum mínum. Þetta er byrði.

Þau reyna samt öll að láta á engu bera, sérstaklega pabbi sem er umhugað um ímynd sína sem hörkutól. Hann þarf líka að læra ýmislegt þótt gamall karl sé. Auðvitað verð ég hér að viðurkenna að ég er ekki fær um svona þanka. En ég verð það einn góðan veðurdaginn. Svo verð ég að taka fram að dvöl mín fyrir sunnan var og er ekki alslæm. Alls ekki. Það var samt erfitt að vera svona mikið og fjarri systkinum mínum. Mamma var mest með mig fyrir sunnan og pabbi var fyrir vestan. Fyrir sunnan er mjög gott fólk sem leitast við að lækna mig og þar er líka frábær leikstofa á Barnaspítala Hringsins með frábæru fólki sem leikur við mig daginn út og inn þegar ég er þar.

Var ég búin að segja hve gaman mér þykir að leika, hve gaman mér þykir að ærslast? Og núna langar mig svooooo mikið að komast aftur á leikskólann minn Sólborg og ærslast þar. Samt er mamma alveg fín. Svo er ég ekki viss um að þau, á leikskólanum, viti hvað þau eigi að gera án mín. Líklega sakna þau mín og minna góðu ráða. Oft var nefnilega alveg nauðsynlegt að segja fólkinu þar fyrir verkum og stjórna því með harðri hendi. En já, núna er ég á Ísafirði og langar mikið á leikskólann. Það verður samt smá bið á því. Læknarnir segja það. Ég hef það samt gott. Meira og minna. Og ég þarf ekki að fara svo oft suður á spítalann. Bara einu sinni í mánuði og einu sinni í viku hér á Ísafirði í smá blóðpróf.  Mikið er gott að vera aftur hérna á Ísafirði.

Og þá ætla ég loksins að segja það sem vildi sagt hafa. Afsakið hvernig ég teygi lopann. En ég ræð ekki hvernig þessum skrifum er háttað.

TAKK!

Þarf ég að útskýra betur? Kíkið á þetta.

TAKK kæra fólk fyrir að sína að ykkur stendur ekki á sama um mig og þar af leiðandi ekki um aðra. Að ykkur stendur ekki á sama um fjölskyldu mína. Flest ykkar þekki ég ekki. Samt eruð þið svo góð og sýnið mér og okkur hlýhug í verki. Fallegt. Svo fallegt. Og mikið sem mér þótti gaman að fá að hlaupa aðeins með ykkur. Þið glödduð mitt barnshjarta. Þetta var eins og að fá marga, marga, marga stóra ísa og hlýtt, hlýtt, hlýtt faðmlag um hjartað sem er svo miklu meira en bara vöðvi sem dælir blóði. Þið sýnduð það í verki góða fólk, þið sýnduð hvernig samfélag getur verið fallegt, á við marga ærslabelgi, sandkassa og rólur. Jafnvel nammi líka. Í samfélagi sem oft á erfitt með að sýna tilfinningar eru nefnilega margar aðrar leiðir til að sýna að manni standi ekki á sama.

TAKK!

Við erum öll hrærð. Svo hrærð.

Að lokum vil ég svo benda á eitt. Fyrir rúmu ári var ég heilsuhraust. Ég sýndi þess engin merki að handan við hornið lúrði óværa (pabbi hættu að slá um þig með orðum sem enginn notar) sem breytti lífi mínu, sem sneri því á haus. Í fyrra þegar haustið nálgaðist fékk ég þrálátt kvef og eitlarnir stækkuðu mikið. Áður en yfirlauk var ég eins og Michellin-maðurinn í framan. En þetta gerðist smátt og smátt, smátt og smátt. Þetta var lúmskt. Ég varð orkuminni, ekki alveg eins og ég á að mér að vera. Leikskólakennararnir höfðu orð á því líka. Ég fór til læknis og allt. Hann sagði mér að koma aftur eftir tvær vikur. Hann tók ekki blóðprufu. Til að gera langa sögu stutta, mjög langa sögu stutta, þá hélt ég áfram að vera slöpp. Ég var svo slöpp að ég varð skugginn af sjálfri mér. Ég fór aftur til læknis. Annars læknis. Hann lét taka blóðprufu. Það var ekki gaman. Blóðprufan leiddi í ljós að eitthvað mikið var að. Ég fór til Reykjavíkur með það sama. Þar fékk ég þær fréttir að ég væri veik, mjög veik. Það sem fylgdi var ekki skemmtilegt.

Skilaboð til foreldra! Ef svipuð einkenni gera vart við sig hjá börnunum ykkar heimtið þá blóðprufu! Hefði ekki verið tekin blóðprufa er óvíst að ég væri hér enn.  Og óvíst hvort einhver gæti framkallað af því bara bros fyrir mömmu og pabba. Af því bara bros er best.

En nú er ég nokkuð spræk og þakka ykkur góða fólk. Þið eruð gull. Það er gott að vera hér og leika sér.

TAKK!

Anđelka Ragnhildur Ólafsdóttir

einn af handhöfum framtíðarinnar.

DEILA