Styrktarboðhlaup Riddara Rósu er í dag  kl. 17:00-20:00

Styrktarboðhlaup Riddara Rósu er árlegur viðburður þar sem fólki gefst kostur á að hlaupa eða ganga í góðra vina hópi og leggja um leið góðu málefni lið.

Þetta er ekki keppni heldur samvera og hvetjum við bæði einstaklinga, vinahópa, vinnustaði og félagasamtök til að fjölmenna.

Afrakstur styrktarhlaupsins rennur alltaf til fólks sem er að takast á við erfiðar áskoranir í lífinu.

Í ár ætlum við að stykja hana Hildu Ólafsdóttur, þriggja ára stúlku á Ísafirði. Hilda hefur verið að glíma við hvítblæði undanfarna mánuði og er nú nýlega komin heim aftur eftir margra mánaða læknismeðferð í Reykjavík og í Svíþjóð.

Hún mun þó áfram þurfa að fara í allskyns rannsóknir og eftirlit, bæði hér heima og í Reykjavík, auk þess að fara mánaðarlega suður í lyfjagjöf allt til ársloka 2024.

Eins og flestir geta ímyndað sér þá fylgir þessu gífurlegt rask og álag fyrir foreldra, systkini og aðra aðstandendur. Við hvetjum því fólk til að fjölmenna í styrktarhlaupið og sýna fjölskyldunni stuðning.

Allir taka þátt á eigin forsendum og hlaupa eins hratt eða hægt og þeir vilja. Svo má auðvitað líka ganga eða hjóla. Þau sem ekki geta verið með en vilja samt styrkja málefnið geta lagt inn á reikning Riddara Rósu: 0556-14-602621 kt: 500605-1700

Þátttökugjald í hlaupinu er kr. 3000 og rennur það óskipt til fjölskyldunnar. Að sjálfsögðu er einnig tekið við frjálsum framlögum.

Hlaupið hefst á planinu við stjórnsýsluhúsið og fer þannig fram að lagður verður þriggja kílómetra hringur um bæinn sem fólk hleypur, skokkar, gengur eða hjólar eins oft og það vill. Þótt þetta sé í grunninn boðhlaup þar sem fólk myndar sveitir sem skiptast á um að klára þessa hringi, þá er framkvæmdin mjög frjálsleg og ekkert að því að fara þetta sem einstaklingur eða rölta í hópi með vinnufélögum eða saumaklúbbnum. Aðal atriðið er að eiga saman skemmtilega stund og láta gott af sér leiða.

Að loknu hlaupi verður boðið uppá grillaðar pylsur á planinu í samstarfi við HSV

DEILA