Lengjudeildin: Vestri í úrslitaleikinn

Leikmenn Vestra fagna í leikslok.

Karlalið Vestra vann einvígið sitt við Fjölni með því að gera jafntefli í gær í Grafarvoginum. Vestri vann fyrri leik leiðanna sem fram fór á Ísafirði. Úrslitin í gær urðu 1:1.

Vestri hafði undirtökin í fyrri hálfleik og Vladimir Tufegdzic  skoraði skömmu fyrir leikhlé eftir að hafa komist inn fyrir vörn heimamanna og fengið góða sendingu frá Benedikt Warén. Snemma í síðari hálfleik dró til tíðinda. Fyrst jöfnuðu Fjölnismenn og hleyptu spennu í leikinn, því ef þeir gerðu annað mark yrðu liðin jöfn samanlagt og leikurinn yrði framlengdur. Svo syrti heldur í álinn þegar Ibrahima Balde var vikið af leikvelli með tvö gul spjöld og Vestramenn voru einum leikmanni færri. Þá þessari stundu hallaði á Vestra, en skjótt skipast veður í lofti og sjö mínútum seinna var jafnt í liðum þegar einum Fjölnismanna var vikið af leikvelli en hann sparkaði í Tufegdzic þegar enginn bolti var nálægt.

Eftir það náði Vestri aftur tökum á leiknum og tókst að halda jöfnum hlut til leiksloka.

Vestri vann sér sæti í úrslitaleiknum þar sem liðið mætir Aftureldingu frá Mosfellsbæ. Leikurinn fer fram á Laugardalsvellinum næsta laugardag. Sigurvegarinn vinnur sér sæti í Bestu deildinni næsta sumar.

Boltinn á leiðinni í mark Fjölnismanna og Vestri kominn yfir 1:0.

DEILA