Bjórkvöld vina: fjölmennir útgáfutónleikar í gærkvöldi

Ólafur Kristjánsson við píanóið. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Í gærkvöldi voru haldnir útgáfutónleikar með lögum Ólafs Kristjánssonar fyrrverandi bæjarstjóra og skólastjóra Tónlistarskóla í Bolungavík í sal FÍH, Rauðagerði 27 í Reykjavík. Húsfyllir var og ætla má að liðlega eitt hundrað manns hafi sótt tónleikana.

Á diski og bók er að finna sjö lög eftir Ólaf. Titllagið heitir bjórkvöld vina og er lag sem Ólafur samdi í snatri þegar Villi Valli hringdi eitt sinn í hann og vantaði lag fyrir kvöldið.

Halldór Smárason hreinskrifaði lögin og hljóðfæraleikara á diskinum eru auk Halldórs (píanó), Bjarni Sveinbjörnsson (bassi)og Pétur Grétarsson (trommur).

Komu þeir fram á tónleikunum og léku lögin á diskinum við góðar undirtektir áhorfenda. Tónleikunum lauk með því að Ólafur Kristjánsson settist við píanóið og lék eitt lag og sýndi gamalkunna takta og var ekki að sjá að hann er að verða 88 ára.

Smári Haraldsson, fyrrv. bæjarstjóri á Ísafirði ritar formálsorð og rekur þar ævi og tónlistarsögu Ólafs. Ólafur er Ísfirðingur og lærður málari og starfaði lengi við það, en tónlistin hefur alltaf skipað stóran sess í ævi hans.

DEILA