Stöndum saman Vestfirðir: vilja safna 6,8 m.kr.

Söfnuninni Stöndum sama Vestfirðir hefur hafið söfnun fyrir nýjum tækjum á endurhæfingu Heilbrigðisstofnun Vestfjarða annars vegar á Patreksfirði og hins vegar á Ísafirði. Söfnunin er stór en gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagið, segir Tinna Hrund Hlynsdóttir, en markmiðið er að ná að safna 6.800.000 kr. Í dag hafa safnast 838.000 kr.

„Við ætlum okkur að sjálfsögðu að klára þessa söfnun, líkt og allar okkar fyrri safnanir, en frá því að félagið fór af stað árið 2016 höfum við safnað tæplega 30.000.000 kr. fyrir vestfirska samfélagið.

Á síðustu árum hefur okkur tekist í sameiningu að safna peningum fyrir ýmsum búnaði sem hefur farið víða um Vestfirðina. Helsta ástæðan fyrir þessu öll saman er einföld. Við veljum að búa hér og eigum líklega flest öll alls konar ástæður fyrir því vali t.d. allt fólkið, samfélagið, landslagið, fegurðin, friðurinn, náttúran, rætur o.s.frv. Við veljum að búa hér og við óskum þess að geta fengið alla mögulega þjónustu á svæðinu okkar. Við teljum að með því að við leggjumst á eitt, með því að safna fyrir nauðsynlegum búnaði á svæðið, hvort sem það er björgunarsveitir, slökkvilið, lögregla, heilbrigðisstofnun, skólarnir eða annað að þá erum við með þessu að bæta lífsgæði okkar allra á svæðinu.

Við trúum því að við getum hjálpað okkur sjálf, með vestfirsku samstöðunni eru okkur allir vegir færir.“

DEILA