Hvalveiðar: 51,3% andvíg og 29,0% styðja

Hvalveiðibátur á siglingu.

Liðlega helmingur landsmanna er andvígur hvalveiðum samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Hefur andstaðan heldur vaxið frá sambærilegri könnun árið 2019. Andvígir nú eru 51,3% og 29,0% styðja áframhaldandi veiðar. Nærri fimmtungur (19,7%) segjast í meðallagi hlynntir eða andvígir. Fyrir fjórum árum voru 42% andvígir og 32% hlynntir.

Hefur því andstæðingum fjölgað um 7% og stuðningsmönnum fækkað um 3%. Hópurinn í meðallagi hefur minnkað úr 27% í 20% svo það eru fleiri sem hafa afgerandi skoðun á málinu nú en fyrir fjórum árum.

þegar svörin eru greind eftir höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar kemur í ljós að nokkur munur er eftir búsetu.

Á landsbyggðinni er nærri jafnar fylkingar 41% er andvígur og 38% styðja veiðarnar. Á höfuðborgarsvæðinu eru mun fleiri andvígir eða 57% og 24% styðja. Andstaðan hefur vaxið um 7% á höfuðborgarsvæðinu frá könnuninni 2019 og á landsbyggðinni hefur andstaðan vaxið um 14%. Stuðningur hefur hins vegar ekki breyst mikið milli kannananna, þó minnkað um 2% á landsbyggðinni og um 3% á höfuðborgarsvæðinu. Breytingin verður fyrst og fremst í því að fækkað hefur í hópnum í meðallagi á landsbyggðinni. Nú eru 20% svarenda í þeim hópi en voru 34%.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum voru 39,7% hlynntir og 40,8% andvígir.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópurfólks (e.panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Svör voru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur, búsetu og menntun, þannig að þau endurspegla þjóðina.
Könnunin fór fram frá 11. til 16. maí 2023 og voru svarendur 1.000 talsins.

DEILA