Merkir Íslendingar – Guðvarður Kjartansson

Guðvarður Kjartansson fæddist á Flateyri við Önundarfjörð þann 5. maí 1941.

Foreldrar hans voru hjónin Guðrún Pálmfríður Guðnadóttir, f. 9.9. 1916, d. 28.8. 1997, dóttir Albertínu Jóhannesdóttur, f. 19.9. 1893, d. 2.1. 1989, frá Kvíanesi í Súgandafirði, og Guðna Jóns Þorleifssonar, f. 25.10. 1887, d. 1.4. 1970, frá Norðureyri í sama firði, sem síðast bjuggu í Efri bænum í Botni og á Suðureyri í sama firði, og Kjartan Ólafsson Sigurðsson, f. 21.9. 1905, d. 25.6. 1956, sonur Guðbjargar Einarsdóttur, f. 7.4.1863, á Sela-Kirkjubóli í Önundarfirði, d. 9.6. 1922, húsfreyju á Gilsbrekku í Súgandafirði, og eiginmanns hennar, Sigurðar skurðar Jóhannssonar, f. 6.1. 1862, d. 2.10. 1925, frá Hafnardal á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp.

Guðvarður var elstur í röð sex systkina;
þeirra Svönu, f. 28.4. 1943, d. 2.9. 2019, Bertu Guðnýjar, f. 23.7. 1945, Hlöðvers, f. 16.8. 1948, Sólveigar Dalrósar, f. 14.6. 1951, d. 15.7. 2015, og Elínar Oddnýjar, f. 16.10. 1954, d. 26.7. 2013.

Guðvarður kvæntist, þ. 20.1.1996, Homhuan Kjartansson – áður Phiwbaikham, f. 9.12.1966, frá Tælandi. Þau skildu. Sonur þeirra er Kjartan Gunnar, f. 7.4. 1997. Fóstursonur Guðvarðar og sonur Homhuan er Athiphong Khod-Anu, f. 18.2. 1988, kvæntur Vipawan Saibud, f. 28.11.1997.

Guðvarður ólst upp á Flateyri. Hann lauk landsprófi frá Héraðsskólanum að Núpi 1958 og brautskráðist frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1960. Var hann trompetleikari í skólahljómsveitinni árin tvö á Bifröst. Sú sveit starfaði svo áfram utan skólans eftir útskrift meðlima hennar með breyttri skipan og gekk þá undir nafninu Kóral kvintett og Kári, mestmegnis á Norðurlandi.

Eftir útskrift frá Bifröst vann Guðvarður eitt ár hjá COOP í Kaupmannahöfn og um tíma hjá Kaupfélaginu á Hólmavík og í Mývatnssveit og síðar hjá ýmsum öðrum Samvinnufyrirtækjum. Gjaldkeri og innheimtustjóri hjá Dráttarvélum hf., 1963 til 1967.

Guðvarður var Kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi Súgfirðinga 1970 til 1973, bókari hjá Kaupfélagi Önfirðinga 1978 til 1984 og jafnframt varamaður í stjórn þess 1979 til 1983 og aðalbókari hjá Kaupfélagi Árnesinga 1984 til 1989. Þá var hann leiðbeinandi við Grunnskólann á Flateyri 1988 til 1993.

Eftir það vann Guðvarður hjá Bókhaldsþjónustunni í Þorlákshöfn þar til hann varð fjármálastjóri Hegas ehf. í Kópavogi 1997 og fram í maímánuð 2008 er hann fór á eftirlaun.

Guðvarður fékkst einnig við sjómennsku í gegnum tíðina, m.a. á eigin bátum frá Flateyri, og með mági sínum í Neskaupstað.

Guðvarður var félagi Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri og formaður þess 1970-1971. Hann var formaður stjórnar kjördæmisráðs Alþýðubandalagsins á Vestfjörðum í þrjú ár og formaður stjórnar kjördæmisráðs sama flokks á Suðurlandi í eitt ár. Hann fylgdi Æskulýðsfylkingunni að málum á yngri árum. Hann sat Í miðstjórn Alþýðubandalagsins í um fimm ár og átti sæti í hreppsnefnd Flateyrarhrepps 1978 til 1982 og var oddviti í rúmt ár.

Guðvarður hafði unun af tónlist. Var tónlistarmaður sjálfur og lék á trompet. Hann var hagmæltur vel, hnyttinn og gamansamur og samdi yfir áratugi gamanljóð, m.a. um ættmenni sín, Botnsarana, við kunn ljóð og flutti sjálfur af snilld.

Guðvarður Kjartansson lést á heimili sínu að Engihjalla 11 í Kópavogi aðfaranótt 30. mars 2023.

Útför Guðvarðar fór fram frá Digraneskirkju 5. apríl 2023.

Guðvarður Kjartansson í Ráðhúsi Reykjavíkur á Önfirðingahátíð í maí 1992 – Flateyrarhreppur 70 ára –

DEILA