Lýðskólinn á Flateyri: útskrift á laugardaginn

Frá útskriftarathöfninni á laugardaginn. Mynd: aðsend.

Lýðskólinn á Flateyri útskrifaði á laugardaginn nemendur í fimmta sinn. Útskriftin fór fram í Flateyrarkirkju og voru 35 nemendur brautskráðir. Alls hafa um 150 nemendur verið útskrifaðir frá skólanum.

Í ræðu Runólfs Ágústssonar, formanns skólanefndar kom fram að við skólasetningu í haust munum verða vígðir nýir nemendagarðar skólans sem munu gjörbreyta allri aðstöðu nemenda. Húsin er með samtals eru 14 stúdíóíbúðir ásamt stóru félagseldhúsi.

nýir tímar á Flateyri

Runólfur sagði þau „standa þar stolt sem fulltrúi nýrra tíma hér í þorpinu, tíma bjartsýni, tíma sóknar og tíma þeirrar samstöðu sem skólinn stendur fyrir, hér á þessum einstaka stað sem þetta þorp er.Húsin eru þau fyrstu sem byggð eru hér á Eyrinni í 27 ár. Þau eru framlag skólans til þorpsins og vaxtar þess. Við hönnun þeirra og byggingu höfum við lagt á það höfuðáherslu að byggja nýtt og framsækið hús sem á sama tíma fellur vel í formi og skala að gömlu byggðinni hér.“

Þá lýsti Runólfur næstu skrefum í uppbyggingu skólans og sagði farin af stað skoðun og greining á framtíðarhúsnæðisþörfum skólans, bæði hvað frekara íbúðarrými varðar sem og kennslu- og skólahúsnæði.

„Næsta skrefið á þeirri leið, verður lítið en fagurt verkefni sem er endurgerð á gamla líkhúsinu sem stendur við gamla dvalarheimilið, Dvaló, gömlu nemendagarðana okkar. Þetta hús var byggt sem líkhús og þvottahús árið 1944 eða 1945. Þetta er hús sem flestir eldri Flateyringar þekkja vel úr sinni barnæsku, því húsið var vinsæll vettvangur leikja þeirra hvar þau höfðu sín bú en einnig hentaði líkhúsið sérstaklega vel fyrir boltaleikinn yfir, og gilti þá sjálfsagt einu, hvort lík stóð uppi í húsinu eður ei.Þetta hús ætlum við nú að glæða lífi.“

Handsalaður hefur verið samningur við Minarc, alþjóðlega bandaríska arkitektastofu sem er staðsett í Santa Monica í Kaliforníufylki um hönnun á endurgerð hússins. Annar aðaleigandi hennar er Tryggvi Þorsteinsson sem fæddur er í Dýrafirði. Runólfur sagði að framlag arkitektastofunnar verði hönnun á endurgerð líkhússins þar sem ætlunin er að koma upp smiðju og verkstæði fyrir nemendur á hugmyndabrautinni okkar. „Þetta verður framlag Tryggva til æskuslóðanna og mun vonandi verða eitt nokkurra framsækinna húsa skólans hér í þorpinu. Við erum sannfærð um að þetta hús verður eftirtektarverðasta, fegursta og mest lifandi líkhús landsins. Glæðum líkhúsið lífi!“

DEILA