Fiskeldisgjald nærri þrefalt hærra á Íslandi en í Noregi

Bæði í Noregi og á Íslandi er lagt framleiðslugjald í fiskeldi. Á Íslandi var það tekið upp í byrjun árs 2020 en ári síðar í Noregi samkvæmt því sem fram kemur í ársskýrslu SalMar í Noregi fyrir árið 2022 sem birt var í síðustu viku.

Gjaldið er ákveðin krónutala og er greitt af hverju framleiddu kg af eldislaxi. Miðað er við slægðan fisk. Á þessu ári er gjaldið 0,56 norskar krónur á hvert kg sem samsvarar 7,08 íslenskar kr. miðað við núverandi gengi norsku krónunnar. Á Íslandi er gjaldið, sem nefnist fiskeldisgjald 18,33 kr. á hvert kg. Gjaldið á Íslandi er því 159% hærra en í Noregi eða langt í það þrefalt hærra. Á síðasta ári var gjaldið í Noregi 5,12 kr. ( 0,40 nok.) en 11,92 kr hér á landi eða 133% hærra.

Fiskeldisgjaldið hér á landi hækkar árlega fram til 2026 þegar það verður 27,58 kr. Hækki gjaldið í Noregi ekki á þeim tíma verður það hartnær fimmfalt hærra en gjaldið í Noregi miðað við núverandi gengi norski krónunnar.

Þar er hins vegar ákveðið að taka upp auðlindagjald, sem mun auka verulega skattheimtuna af laxeldi, en löggjöfin hefur ekki verið afgreidd í norska þinginu.

Í ársreikningi SalMar, sem á liðlega 50% hlutafjár í Arnarlax, kemur fram að samtals voru á síðasta ári greiddar 85,2 milljónir norskra króna í framleiðslugjald samanlagt í Noregi og á Íslandi. Upphæðin skiptist þannig milli landanna að fyrir 177,5 þúsund tonna framleiðslu í Noregi voru greiddar 71,8 milljónir norskra króna í framleiðslugjald en á Íslandi voru greiddar 13,5 milljónir norskra króna fyrir 16.100 tonna framleiðslu.

Hlutur Arnarlax í framleiðslunni var því 8,3% en hins vegar 15,8% í framleiðslugjaldinu. Þar sem fiskeldisgjaldið á Íslandi hækkar meira á þessu ári 2023 en í Noregi mun hlutur Arnarlax í skattgreiðslunni aukast hlutfallslega frá 2022.

DEILA