Byggðasamlag Vestfjarða: kostnaður við starfslokasamning að mestu færð á árið 2023

Ársreikningur Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks fyrir síðasta ár hefur verið birtur. Ólafur Þór Ólafsson, stjórnarformaður staðfestir að kostnaður við starfslokasamning fyrrverandi framkvæmdastjóra Sifjar Huldar Albertsdóttur sé að mestu færður á árið 2023. Tilkynnt var formlega um starfslokin 7. desember 2022 sem urðu nokkrum dögum fyrr eða þann 1. desember. Ólafur Þór vildi ekki upplýsa um efni starfslokasamningsins og bar við að ákvæði væri í honum um trúnað. Hann var spurður hvort samið væri um 12 mánaða laun og vildi ekki svara því með vísan til trúnaðarákvæðisins. Sif Huld Albertsdóttir var einnig innt eftir því hvort starfslokasamningurinn fæli í sér 12 mánaða laun og vildi hún ekki svara því heldur og vísaði á BsVest.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta var það innihald starfslokasamningsins, 12 mánaða laun. Athuga ber að ef það væri rangt hefði stjórnarformaður Byggðasamlagsins getað svarað fyrirspurn Bæjarins besta og neitað, því væntanlega er enginn trúnaður í starfslokasamningnum á röngum upplýsingum. En hvorugur aðili starfslokasamningsins neitar því að um 12 mánaða laun sé að ræða.

Kostnaður við slíkan starfslokasamninginn liggja ekki fyrir og engin grein er gerð fyrir honum í ársreikningi byggasamlagsins fyrir 2022, þrátt fyrir að samningurinn sé gerður á því ári. Laun framkvæmdastjóra að meðtöldum launatengdum gjöldum eru líklega milljón kr. á mánuði eða jafnvel meira og heildarkostnaður við 12 mánaða starfslokasamning gæti því verið a.m.k. 12 – 15 m.kr.

Það verður að teljast aðfinnsluvert að stjórn Byggðasamlags Vestfjarða leggi fram ársreikning án þess að gera grein fyrir þessum viðbótarkostnaði sem byggðasamlagið samdi um á síðasta ári né á nokkurn hátt minnast á starfslokin einu orði og orsakir þeirra.

Í færslu á Facebook sama dag og tilkynnt var um starfslokin skrifaði fyrrverandi framkvæmdastjóri byggðasamlagsins: „Tveggja ára baráttu, í að reyna að starfa sem framkvæmdastjóri BsVest, eftir að ég tilkynnti einelti, er lokið. Ég óskaði eftir starfslokasamningi þar sem starfumhverfi á vinnustaðnum mínum breyttist ekki þrátt fyrir fögur loforð um að hlutirnir myndu breytast.“

Telur Byggðasamlag Vestfjarða í alvöru að ekki þurfi að gefa neinar skýringar á málinu og gera grein fyrir kostnaði sem fellur á skattgreiðendur?

Til þess að botna þetta mál þá fékk framkvæmdastjórinn fyrrverandi afsökunarbeiðni frá Ísafjarðarbæ vegna sama máls og greiddar bætur frá sveitarfélaginu. Sá samningur er einnig trúnaðarmál en skattgreiðendur borga hann líka.

Í ársreikningi Byggðasamlagsins er að finna liðin samkomulagsbætur 15,9 m.kr. undir skrifstofu- og stjórnunarkostnaður. Enginn frekari grein er gerð fyrir því um hvað er að ræða. Um hvað er samkomulag og hverjum er greitt? Þegar vakin er athygli á þessu á Bæjarins besta og talið að um sé að ræða kostnaður við starfslokasamning framkvæmdastjórann fyrrverandi fást svör. Þarna var um að ræða hlut byggðasamlagsins í skaðabótum sem starfsmaður Ísafjarðarbæjar fékk dæmdar vegna starfa sem falla undir svið byggðasamlagsins. Ekki er orð um þetta í nýframlögðum ársreikningi Byggðasamlags Vestfjarða.

Loks skal nefnt að í títtnefndum ársreikningi er nýr kostnaðarliður: lögfræðiþjónusta 7,7 m.kr. sem færður er undir skrifstofu- og stjórnunarkostnað líkt og samkomulagsbæturnar. Að öðru leyti er ekki gerð grein fyrir þessum útgjöldum í ársreikningnum. Stjórnarformaður byggðasamlagsins var inntur eftir því hvað væri þarna á ferðinni. Voru það ýmis mál samkvæmt svörunum m.a. mál framkvæmdastjórans fyrrverandi.

Þessir þrír útgjaldaliðir byggðasamlagsins, sem hér hafa verið gerðir að umfjöllunarefni, eru samtals að fjárhæð 35 – 40 m.kr. Til samanburðar þá er árlegur launakostnaður byggðasamlagsins 14 – 15 m.kr. Þetta er því ekki léttvægur kostnaður í rekstri byggðasamlagsins. Auðvitað á að gera rækilega grein fyrir slíkum útgjöldum í ársreikningi stofnunar sem rekin er fyrir almannafé.

Það er óásættanlegt að þagað sé yfir þessu og óþægindunum sópað undi teppið í opinberri skýrslugerð um meðferð almannafjár sem ársreikningurinn er.

Það vekur sérstaka athygli að endurskoðandi Byggðasamlagsins segir í áritun sinni að „Við könnun okkar kom ekkert fram sem bendir til annars en að ársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu félagsins á árinu“.

-k

DEILA