Hvalárvirkjun: óvissa um eignarhald vatnsréttinda

Hvalá. Mynd: Vesturverk.

Kröfur ríkisins fyrir Óbyggðanefnd um þjóðlendu á Ófeigsfjarðarhálendinu skapa óvissu um það hver er eigandi vatnsréttindum sem nýta á við Hvalárvirkjun. Vesturverk hefur gert samninga við landeigendur að Engjanesi og Ófeigsfirði en ríkið gerir kröfu til lands á þessu svæði sem þjóðlendu og ef Óbyggðanefnd fellst á kröfuna yrði ríkið eigandi að réttindunum. Ekki er búist við niðurstöðu Óbyggðanefndar fyrr en í haust.

Forsvarsmenn Vesturverks hafa farið þess á leit við fjármálaráðuneytið til þess að eyða óvissu um framvindu málsins að ríkið lýsi því yfir að það sé tilbúið að ganga inn í gerða samninga m.a. í ljósi þess að Alþingi hefur skilgreint Hvalárvirkjun í nýtingarflokk.

Þetta kom fram í erindi Ásbjarnar Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindarsviðs, HS orku á Orkuþingi Vestfjarða 2023 í gær.

Óvissu vegna friðunaráforma eytt

Hins vegar hefur verið eytt óvissu um Hvalárvirkjun sem uppi var vegna friðunaráforma. Annars vegar var spurning um áhrif af friðun jarðarinnar Dranga. Þar er í friðunarskilmálum ákvæði um áhrif mannvirkjagerðar innan 5 km marka frá jarðamörkum Dranga. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, UOL, hefur kveðið upp úr með það að þetta hamli ekki mannvirkjagerð á Ófeigsfjarðarheiði. Hitt atriðið var tillaga frá Náttúrufræðistofnun Íslands um að friða 26 fossa á vatnasviði Hvalárvirkjunar. Tillagan var gerð haustið 2020 að beiðni þáverandi umhverfisráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Í formlegu svari UOL kemur fram að ekki geti orðið að friðun viðkomandi fossa þar sem Alþingi hefur í tvígang sett Hvalárvirkjun í nýtingarflokk og því verði ekki breytt nema til komi ný ákvörðun Alþingis.

DEILA