Merkir Íslendingar – Elsa E. Guðjónsson

Elsa E. Guðjónsson fæddist þann  21. mars 1924.

Foreldrar hennar voru Halldór G. Marías Eiríksson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, og Elly Margrethe Eiríksson, f. Schepler, í Kaupmannahöfn.

Halldór var sonur Eiríks Sigmundssonar, bónda á Hrauni á Ingjaldssandi, og Sigríðar Jóhönnu Jónsdóttur húsfreyju.

Langamma Elsu í móðurætt var Karen Marie Schepler sem stofnaði Mælkeforsyningen Ravnsborg í Nørrebro í Kaupmannahöfn,1886. Synir hennar tveir ráku síðan fyrirtækið og var annar þeirra Carl Schepler, móðurafi Elsu. Það fyrirtæki varð seinna að Irma, keðju matvöruverslana.

Systkini Elsu:

Inger E. Johnsen, lengst af búsett vestanhafs, og Carl J. Eiríksson verkfræðingur.

Eiginmaður Elsu var Þórir Guðjónsson, fiskifræðingur og veiðimálastjóri.
Börn þeirra: Stefán Þór, Elsa Margrét, og Kári Halldór
.

Elsa lauk stúdentsprófi frá MR, BA og síðan MA-prófi í textíl – og búningafræðum, list og listasögu frá Háskólanum í Seattle, stundaði nám í Íslandssögu við HÍ 1953-56 og lauk prófi í miðaldasögu 1961.

Elsa var sérfræðingur og safnvörður í Þjóðminjasafni Íslands frá 1963 og deildarstjóri textíl- og búningadeildar safnsins frá 1985 til starfsloka 1994.

Elsa átti sæti í fjölmörgum nefndum og ráðum um textíl- og búningasögu, var höfundur bóka og fjölmargra greina, ritgerða og bókarkafla um textíl- og búningasögu í íslenskum sem og erlendum tímaritum, fræði- og alfræðiritum, höfundur útvarps- og sjónvarpsþátta, fyrirlesari á ráðstefnum og þingum og útgefandi.

Elsa hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1981, var kjörin félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1985, hlaut verðlaun frá Kungliga Gustav Adolfs Akademien í Uppsölum í Svíþjóð 1987 og heiðursdoktorsnafnbót við HÍ 2000.

Elsa E. Guðjónsson lést þann 28. nóvember 2010.

DEILA