Arðskrá fyrir Veiðifélag Laxár í Hvammssveit hefur ekki verið send Fiskistofu til staðfestingar eins og lög um lax og silungsveiði kveða á um né heldur birt í B deild stjórnartíðinda sem einnig er lögbundin skylda. Arði af rekstri veiðifélags er skipt samkvæmt skiptingu milli eigenda í arðskrá og eins er atkvæðisréttur í veiðifélaginu stundum bundinn sömu skiptingu.
Guðmundur B. Helgason, Ríkisendurskoðandi og eigandi að Leysingjastöðum segir að hann taki engan þátt í störfum veiðifélags Laxár í Hvammssveit, eigi ekki aðild að fundum þess og sé ekki á nokkurn hátt í forsvari fyrir það. Hins vegar viti hann fyrir víst að ársreikningar veiðifélagsins hafi verið sendir Fiskistofu árlega. Að sögn Guðmundar verður ársfundur veiðifélagsins haldinn síðar í þessum mánuði og í framhaldinu verður ársreikningur fyrir 2022 sendur stofnuninni. Skipting arðs kemur fram í ársreikningi.
Guðni Magnús Eiríksson, deildarstjóri hjá Fiskistofu staðfestir að Fiskistofa hafi móttekið ársreikninga fyrir Veiðifélagið. Hann synjaði ósk um afrit af ársreikningunum og vísaði til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í þeirri grein segir að óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Benti Guðni á að að beina erindinu beint til veiðifélagsins.
Helga Jóna Benediktsdóttir, formaður Veiðifélags Láxár í Hvammssveit hefur ekki svarað óskum Bæjarins besta um afrit af ársreikningum og arðskrá. Guðmundur B. Helgason, Ríkisendurskoðandi og eiginmaður Helgu segir að veiðifélögum beri engin skylda til að afhenda fjölmiðli þessar upplýsingar, en Helga muni taka upplýsingabeiðni Bæjarins besta fyrir á næsta aðalfundi veiðifélagsins.
Veiðiréttindin í Laxá í Hvammssveit skiptast milli níu jarða. Þau eru ekki metin til fasteignamats þar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur ekki fengið nauðsynlegar upplýsingar, sem eru ársreikningar og arðskrá og hefur því ekki getað reiknað út fasteignamatið. Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri hjá Fiskistofu segir að Fiskistofa hafi ekki skyldur til að miðla upplýsingum um arðgreiðslur veiðifélaga til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og hafi ekki borist beiðni frá þeirri stofnun um slíkar upplýsingar.
Greidd eru fasteignagjöld til sveitarfélags af eignum sem metin eru til fasteignamats. Beðið er svara frá sveitarstjóra Dalabyggðar um hvað það hyggist gera til þess að bæta úr því að veiðiréttindin eru ekki metin til fasteignamats og skila sveitarfélaginu engum tekjum.
Dalabyggð er aðili að veiðifélaginu sem eigandi að einni jörðinni og hefur því fengið ársreikninga félagsins.