Ísafjarðarbær: upplýsingaleyndin í Þrúðheimamálinu vafasöm

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar segir í bókun að samkomulag milli Þrúðheima ehf og sveitarfélagsins um greiðslu bóta sé trúnaðarmál. Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að sveitarfélagið telji sér óheimilt að afhenda samkomulag við Þrúðheima í heild eða að hluta, með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Þá segir hún að aðilar samkomulagsins hafi undirritað heit um trúnað varðandi efni þess, og telur sveitarfélagið sig því ekki geta brotið það gagnvart málsaðila.

Kjarni málsins er sá að Ísafjarðarbær er að greiða Þrúðheimum ehf bætur fyrir að hafa brotið rétt á félaginu þegar gerður var samningur til þriggja við Ísófit ehf um rekstur líkamsræktarstöðvar með mánaðarlegu 420 þús kr framlagi úr bæjarsjóði. Innviðaráðuneytið hefur úrskurðar styrkveitinguna ólögmæta og segir í úrskurðinum að ákvörðun Ísafjarðarbæjar hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli stjórnsýslulaga um jafnræðisreglu, rannsóknarreglu og lögmætisreglu.

Spurningin er hvað er í samningnum, hvað eru bæturnar háar og hvers vegna fellst bærinn á að greiða þær. Skattgreiðendur borga þennan brúsa og það er því eðlileg krafa að þeir fái allar upplýsingar um hann.

Hvers vegna þarf leynd ?

Bæjarstjórinn vísar til 9. greinar upplýsingalaga til skýringar á því að óheimilt sé að afhenda upplýsingarnar. Þar segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sama gildi þegar um er að ræða fjárhags- eða viskiptahagsmuni fyrirtækis eða lögaðila.

Nú liggur fyrir að Þrúðheimar ehf er hinn samningsaðilinn og að af þeirra hálfu var ekki farið fram á trúnað um samkomulagið. Því blasir við að sá sem í hlut á er samþykkur því að samkomulagið verði gert opinbert. Þá stendur eftir að það er ákvörðun Ísafjarðarbæjar að halda samkomulaginu og efni þess leyndu.

En í lagatextanum er ekki að finna neina heimild Ísafjarðarbæjar til þess að sveipa þessar upplýsingar leynd úr því að viðsemjandinn er samþykkur birtingu þeirra. Heimildin er til þess að vernda hagsmundi einstaklinga eða fyrirtækja sem eru að semja við sveitarfélagið en ekki til þess að vernda sveitarfélagið sjálft. Það er út í hött að leyna fjárhagsupplýsingum sveitarfélagsins fyrir almenningi. Í þeim efnum á það ekki við, sem getur átt við um einstaklinga eða fyrirtæki, að sanngjarnt sé og eðlilegt að tilteknar upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni fari leynt.

Þess vegna verður ekki séð að ákvæði 9. greinar veiti heimild til bæjarstjóra eða bæjarráðs að leyna upplýsingum ef viðsemjandinn samþykkir birtingu.

Þegar upplýsingalögin voru afgreidd á Alþingi á sínum tíma fyrir 10 árum fylgdu frumvarpinu greinargerð til þess að skýra frekar textann. Þar kemur fram að 9. greinin sé óbreytt frá upplýsingalögunum sem samþykkt höfðu verið 1996. Í skýringunum með lagagreininni er að finna þetta athyglisverða niðurlag:

„Ljóst er að ef sá sem upplýsingar varðar samþykkir að umbeðnar upplýsingar séu veittar stendur 9. gr. almennt ekki í vegi fyrir upplýsingagjöf.“

Enda má spyrja : fyrir hvern er leyndin þá?

-k