Ísafjarðarbær: uppfærður samningur við Björgunarfélag Ísafjarðar

Guðmundarbúð. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt nýjan þjónustusamning við Björgunarfélag Ísafjarðarbæjar þar sem styrkur vegna fasteignagjalda gildir einnig fyrir nýlegt geymsluhúsnæði björgunarfélagsins að Sindragötu 9. Fyrri samningur kveð á um styrk vegna fasteignar björgunarfélagsins að Sindragötu 6.

Björgunarfélagið skal ávallt vera til taks við allar björgunaraðgerðir hvort sem er til sjós eða lands, og vinna með almannavörnum í sveitarfélaginu. Til viðbótar tekur Björgunarfélag Ísfjarðar að sér fyrir sveitarfélagið og/eða í þágu íbúa þess aðra þjónustu, s.s. aðstoð við framkvæmd hátíðahalda á Sjómannadaginn í samstarfi við aðra aðila, flugeldasýningu um áramót og þátttöku í ýmiss konar kynningum er varða forvarnarstarf í slysavörnum.

Þau verkefni og sú þjónusta er Björgunarfélag Ísafjarðar veitir sveitarfélaginu og ekki eru björgunarverkefni eða fyrirbyggjandi aðgerðir og ekki er hægt að flokka sem sérverkefni björgunarsveita verða greidd samkvæmt reikningi eftir áður gerðu samkomulagi í hverju tilviki fyrir sig. Þau verkefni sem Björgunarfélagið hefur innt af hendi og flokka má undir lið þennan, eru t.d. flutningur gangnamanna, ferðir með starfsmenn sveitarfélagsins í eftirlit með vatnsbólum, og niðurrif húsa.

Samningurinn er til loka árs 2027 og er uppsegjanlegur með sex mánaða fyrirvara.

DEILA