Hvest: fékk góðar gjafir á síðasta ári

Heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson flutti ávarp á ársfundinum.

Ársskýrsla Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða fyrir síðasta ár er komin út.

Tekjur stofnunarinnar voru 3,6 milljarðar króna og langstærsti útgjaldaliður eru laun sem voru 2,6 milljarðar króna. Meðalfjöldi stöðugilda hækkaði um 13,4 stöðugildi á milli ára eða um 7,0%. Afkoma ársins 2022 stefndi í 332 milljón króna halla sem er að hluta til uppsafnaður halli, en með aukafjárveitingu náðist að snúa stöðunni við og endaði afkoma ársins jákvæð um 20,8 milljónir króna. „Sérstaklega reiknast okkur til að hjúkrunarrýmin séu vanfjármögnuð“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri í ársskýrslunni.

Stofnunin tók á móti nokkrum góðum gjöfum á árinu og er þar fyrst að telja að söfnunin Stöndum saman Vestfirðir afhenti heyrnarmælingatæki í lok febrúar. Sjúkraþjálfunin á Patreksfirði tók á móti afar veglegri gjöf frá Lionsklúbbi Patreksfjarðar en það var tæki frá NuStep sem þjálfar bæði styrk og þol. Dýrafjarðardeild Rauða krossins gaf endurlífgunartæki á heilsugæsluselið á Þingeyri í lok apríl. Fæðingadeildinni barst falleg gjöf frá Rósbjörgu Eddu Sigurðardóttur Hansen en hún færði deildinni englaklæði sem hún saumaði og eru ætluð foreldrum sem missa barn á meðgöngu.

Kvenfélagasamband Íslands varð 90 ára árið 2020 og færði fæðingadeildinni í tilefni þessara tímamóta nýjan fósturhjartsláttarsíritia sem kemur sér sannarlega vel. Katrín Björk Guðjónsdóttir færði stofnuninni fimm litríkar og fallegar myndir að gjöf sem lífga sannarlega uppá setustofuna á annrri hæð.

DEILA