Byggðasafn Vestfjarða: skortur á fé til viðhalds

Horft yfir Neðastakaupstaðar-húsin. Mynd: Byggðasafn Vestfjarða.

Í ársskýrslu Byggðasafns Vestfjarða fyrir síðasta ár kemur fram að ekkert hafi verið unnið við Bárðarslipp á árinu frekar en árin á undan. Þó var tekið til á svæðinu í árslok og allt rusl og ónýtt timbur fjarlægt. Byggðasafn Vestfjarða hefur staðið að fjármögnun við viðgerð slippsins hingað til. Ekki tókst að afla styrkja til frekari framkvæmda. Slippurinn er í eigu Ísafjarðarbæjar sem fól safninu hann til umsjónar og varðveislu árið 2007.

Bátar safnsins eru 15, að auki eru tveir sem eru fóstraðir fyrir Þjóðminjasafn Íslands. Vegna aðhaldsaðgerða var ákveðið að lágmarka alla vinnu við þá, þrátt fyrir að meira hafi verið gert en árið 2020 segir í ársskýrslunni.

Ekki tókst að fjármagna lagfæringar á Gunnari Sigurðssyni ÍS 13 og bíður hann enn um sinn að komast á flot. Sædís var við bryggju fram á haustið 2018 og þá tekinn á land. Hefur ekki verið sjósett aftur.

María Júlía BA 36. Hreyfing komst á mál Maríu Júlíu á árinu þegar ríkið veitti til hennar 15 milljónum til að hægt væri að koma henni í slipp á Akureyri. Þar fer hún í fyrstu lagfæringar en fer svo þaðan til Húsavíkur þar sem unnið verður í henni eftir því sem fjármagn fæst. Fjárlög næstu tvö árin kveða á um 15 m.kr. hvort ár. Beðið er veðurs að koma henni norður.

Vélsmiðja G.J. Sigurðssonar á Þingeyri var því miður ekki opin sumarið 2022 nema fyrir hópa sem óskuðu þess sérstaklega og sá þá Kristján Gunnarsson um að taka á móti. Enginn starfsmaður fannst til að sinna safninu.

Þá er vikið að aðstöðu safnsins í skýrslunni. þar segir að safnið hafi sára þörf fyrir geymsluaðstöðu fyrir stærri hluti sem geymdir eru á nokkrum stöðum og einnig báta safnsins, sem teknir eru á land yfir vetrarmánuðina. Mjög brýnt er að þessi vandi verði leystur á allra næstu árum en skoða mætti þau mál í samhengi við sára vöntun Héraðsskjalasafnsins, Ljósmyndasafnsins og Listasafns Ísafjarðar fyrir geymslurými.

DEILA