Ísafjarðarbær: hafnaframkvæmdir 525 m.kr. á næsta ári

Í nýsamþykktri fjárhagsáætlun 2023 fyrir Ísafjarðarbæ eru samþykktar framkvæmdir hafnasjóðs 525 m.kr. Hlutur ríkisins í framkvæmdunum er 285 m.kr. og gerir því fjárhagsáætlunin ráð fyrir að sveitarfélagið kosti 240 m.kr. af framkvæmdakostnaði. Í greinargerð með fjárhagsáætluninni er kostnaði ekki skipt milli einstakra framkvæmda og því ekki ljóst hver hlutur hverrar framkvæmdar er.

Stærsta verkefnið er án efa hafnargerð á Suðurtanga í Skutulsfirði. Dýpkun við Suðurtanga hefur dregist og er ekki hafin enn. Í greinagerðinni segir að nú liggi fyrir „að dýpkun muni vinnast öðru hvoru megin við áramótin 2022-2023 og ætti að vera lokið áður en nýr Sundabakki verður tekinn í notkun, á vormánuðum 2023.“

Sett verður upp ný girðing og eftirlitsmyndavélakerfi á nýja Sundabakka fyrir vorið 2023 til þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru vegna móttöku skemmtiferðaskipa og annara kaupskipa sem hingað koma. Einnig verður byrjað á hönnun og skipulagningu á móttökuhúsi (Terminal) fyrir farþega og þjónustuaðila skemmtiferðaskipa.

Áætlað er að endurnýja löndunarkrana á Suðureyri en krani sem var á nýja kantinum var tekinn niður og gerður upp og settur niður á Þingeyri.

Stefnt er að því að endurnýja kraftnema og pall bílavogarinnar á Ísafirði, en hún hefur verið að bila síðustu misseri án sýnilegrar ástæðu.

Endurbygging á innri hafnarmannvirkjum á Þingeyri mun hefjast á næsta ári, en verkið er styrkt af Hafnabótasjóði um 75%. Stefnt er að því að malbika norðurhluta gámaplans en syðri hlutinn var malbikaður 2018.

Gert er ráð fyrir að hönnuð verði þjónustubygging á gamla olíumúlanum á Ísafirði þar sem verður afdrep fyrir skútusiglingar. Þar munu áhafnir aðkomuskútubáta geta baðað sig og þvegið og mun þjónustan verða tengd hafnargjöldum.

Þá verður hafist handa við að endurnýja aðstöðu vigtarmanna á harðviðarbryggjunni á Ísafirði sem og á Flateyri og segir í greinargerðinni að hugsanlegt væri að byggja eins hús úr einingum á báðum stöðum.