Áramótaannáll framkvæmdastjóra 2022

Árið 2022 var eins og öll önnur ár viðburðarríkt hjá Vestfjarðastofu og á Vestfjörðum öllum. Þetta er árið sem við áttuðum okkur á að hér er að hefjast tímabil uppbyggingar en enn eru nokkuð stórar hindranir í veginum og vega innviðamál svæðisins þar þyngst. Það er erfitt að byggja upp þegar grundvallarþættir í innviðum svæðisins eru ekki í lagi.

Orkumálin eru gríðarlega mikilvæg fyrir framtíðaruppbyggingu atvinnulífs og samfélags á Vestfjörðum og því miður er það svo að svæðið hefur liðið fyrir vanhugsaðar ákvarðanir sem „redda“ áttu málum til skamms tíma en voru ekki hagstæðar framtíðaruppbyggingu svæðisins. Segja má að alltof lengi hafi ráðamenn þjóðarinnar horft til Vestfjarða líkt og horft er til „sjúklings“ í líknandi meðferð og ákvaðanir teknar með það að markmið að lina þjáningar íbúa hinnar hnignandi byggðar.

Drifkrafturinn uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi var áratugum saman stórar virkjanaframkvæmdir eða verkefni á sviði stóriðju sem stjórnvöld og fyrirtæki í eigu ríkisins gátu beitt sér í að veita brautargengi. Hliðaráhrif slíkra framkvæmda fyrir þá landshluta sem í hlut áttu var að þá fékkst aukið afhendingaröryggi raforku og traustari grundvöllur fyrir uppbyggingu samfélaga á atvinnulífs. Á Vestfjörðum voru ekki möguleikar til stórra virkjana eða stóriðju og þar með var svæðið um langa hríð sett til hliðar og orkumálum ekki sinnt af þeim krafti sem þurft hefði til að svæðið væri samkeppnishæft á við önnur svæði. Staðan á Vestfjörðum passaði ekki í excel skjal stjórnvalda og með þeim ákvörðunum sem teknar voru, nú eða ekki teknar voru bjargirnar í raun teknar af svæðinu á þessum tíma og stjórnvöld þar með í raun, með skammsýni sinni, tekið af Vestfjörðum tækifæri til vaxtar.

Öllum að óvörum er „sjúklingnum“ nú að batna. Hann er kominn úr öndunarvélinni en þarf endurhæfingu og stuðning eitthvað áfram til að ná fullum bata og geta staðið jafnfætis öðrum landshlutum og gripið tækifæri til framtíðar. Nú er aukin eftirspurn eftir raforku á Vestfjörðum meðal annars í tengslum við uppbyggingu í fiskeldi og vinnslu kalkþörunga og raforkuþörf á Vestfjörðum er líklega rúmlega 60% meiri en Orkuspárnefnd hefur spáð fyrir um og er lögð til grundvallar kerfisáætlun Landsnets 2020-2029.

Í byrjun apríl hélt Vestfjarðastofa málþing um orkumál á Vestfjörðum þar sem starfshópur umhverfis- orku og loftslagsráðherra um orkumál á Vestfjörðum kynnti tillögur um lausnir í orkumálum á Vestfjörðum. Jafnframt var farið yfir virkjanakosti á Vestfjörðum, flutning og dreifingu raforku og framtíðarspár um orkunotkun svæðisins. Meginniðurstöður starfshópsins sem kynntar voru á fundinum eru að til þess að bæta afhendingaröryggi á Vestfjörðum og tryggja nægjanlegt afl sé nauðsynlegt að vinna að úrbótum og verkefnum sem snerta nánast alla hluta raforkukerfisins og er lögð fram tillaga að framkvæmdaáætlun vegna þess sem Vestfjarðastofa hefur lagt mikla áherslu á að fylgt verði.

Stjórnvöld hafa með umtalsverðum framkvæmdum í samgöngum á Vestfjörðu, í Gufudalssveit, Dynjandisheiði og með gerð Dýrafjarðarganga, tekið skref í átt að breyttum áherslum og hafið „endurhæfinguna“.  Hér er þó í raun um að ræða verkefni til að vinna upp áratuga vanrækslu því það var ekki bara á sviði orkumála sem svæðið var sett til hliðar í langan tíma heldur hvað varðaði alla uppbyggingu innviða. Mikilvægt er að ljúka þeim framkvæmdum sem þegar eru hafnar og taka ákvarðanir og setja á samgönguáætlun næstu stóru framkvæmdir á Vestfjörðum. Þar hlýtur að þurfa að horfa til jarðgangnaáætlunar Vestfjarða þar sem skýrar áherslur hafa verið lagðar um næstu jarðgangnaframkvæmdir á Vestfjörðum.  

Vestfjarðastofa hefur á árinu með fjölmörgum samtölum við þingmenn og starfsmenn stofnana og ráðuneyta vakið athygli á þessum stóru málum sem varða orku og innviðamál Vestfjarða og það er stór hluti af okkar starfsemi að sinna hinni sameiginlegu hagsmunagæslu fyrir Vestfirði.

Vestfirskt samfélag er í sókn og það er gaman að sjá þess merki í atvinnulífi svæðisins. Það er þó svo að skortur á íbúðahúsnæði er farinn að hamla uppbyggingu atvinnulífs og er þess valdandi að fyrirtækin þurfa í einhverjum tilfellum að skipuleggja starfsemi sína og byggja á farandstarfsfólki. Vestfjarðastofa hefur með ýmsum hætti vakið athygli á þessari stöðu og í flestum ef ekki öllum sveitarfélögum á Vestfjörðum hefur mikið verið unnið að skipulagsmálum til að tryggja að til staðar séu lóðir fyrir íbúðahúsnæði.

Þetta var árið sem Vestfirðir voru efstir á lista ferðabókaútgefandans Lonely Planet í árlegu vali yfir lönd, svæði og borgir til að heimsækja. Í langan tíma hefur mikil áhersla verið lögð á sjálfbæra uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu og er þetta val Lonely Planet í raun viðurkenning fyrir þessar áherslur. Þróun Vestfjarðaleiðarinnar með þeim áherslum sem í þeirri vinnu hefur verið á sérkenni, sögur og sjálfbærni er síðan líka að skila sér í miklum áhuga á uppbyggingu gististaða og hótela sem vonandi mun raungerast á næstu árum. Mikilvægt er þó að sú uppbygging verði í takti við áherslur svæðisins og áfram verði áhersla á sérkenni svæðisins og sjálfbæra þróun.

Á Vestfjörðum á sér stað gríðarlega mikil verðmætasköpun í hagkerfi sem að verulegu leiti er útflutningsmiðað. Stærstu atvinnugreinar svæðsins eru sjávarútvegur, fiskeldi og ferðaþjónusta. Í áherslum er jafnframt horft til orkumála og orkuskipta af ástæðum sem raktar eru í upphafi þessa pistils. Samstarf Vestfjarðastofu og Bláma hefur verið með miklum ágætum á árinu og á þeim vettvangi er unnið að mörgum mikilvægum framfaramálum á sviði orkuskipta í sjávartengdri starfsemi og flutningum.

Vöxtur er bæði á sunnan og norðanverðum Vestfjörðum. Á Ströndum og Reykhólum gætir ekki áhrifa af fiskeldi sem knýja áfram vöxt á fyrrnefndum svæðum og eru þar nokkrar blikur á lofti þar sem miklir erfiðleikar eru í sauðfjárrækt og á þeim svæðum er það mikilvæg atvinnugrein.  Vestfjarðastofa kemur að tveimur verkefnum undir merkjum Brothættra byggða með Byggðastofnun og sveitarfélögum á svæðinu; Áfram Árneshreppur og Sterkar Strandir. Jafnframt hefur verið sett af stað samstarfsverkefni með Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi Vestra og Vesturlandi sem vonast er til að geti skilað tillögum til stjórnvalda um úrbætur sem hafa að markmiði að styrkja byggð í Dölum, Reykhólum, Ströndum og Húnavatnssýslum.

Á Reykhólum fékkst á árinu stuðningur úr Byggðaáætlun til verkefnisins Grænir iðngarðar á Reykhólum. Hugmyndin með grænum iðngörðum er að auka aðdráttarafl svæðisins til fjárfestinga og nýsköpunar og auka þannig fjölbreytni í atvinnulífi og nýtingu á auðlindum svæðsins. Verkefnið var sett af stað á haustdögum eftir nokkurn undirbúning og munu fyrstu niðurstöður og tillögur liggja fyrir á árinu 2023.

Auk verkefnisins á Reykhólum fékkst stuðningur úr Byggðaáætlun til jarðhitarannsókna við Gálmarströnd og til undirbúnings og forsendugreininga vegna hitaveitu í Árneshreppi. Þessi verkefni skipta miklu máli fyrir atvinnuuppbyggingu og samfélög á þessu svæði.

Árið 2022 var kosningaár til sveitarstjórna og óhjákvæmilega marka slík tímamót nokkuð starfsemi okkar á Vestfjarðastofu. Við eigum mikið samstarf við sveitarstjórnir og sveitarstjóra og á kosningaárum kynnum við starfsemi okkar fyrir nýju fólki og nýtt fólk sest í stjórnir og starfshópa. Ég vil fyrir hönd okkar á Vestfjarðastofu þakka fráfarandi sveitarstjórnum, bæjar- og sveitarstjórum kærlega fyrir samstarfið síðustu fjögur ár og bjóða nýtt fólk velkomið til starfa.  

Vestfjarðastofa er nú á sínu fimmta starfsári og eðli starfseminnar er að þróast og breytast með samfélagi og atvinnulífi og þó verkefnin séu að mörgu leiti lík frá ári til árs þá verða breytingar á hverju ári. Á árinu 2022 voru mannabreytingar innan Vestfjarðastofu og tveir starfsmenn sem verið höfðu hjá Vestfjarðastofu frá upphafi og áður Fjórðungssambandi hurfu til annarra starfa og tveir nýjir bættust í hópinn. Við þökkum Birnu Jónasdóttur og Díönu Jóhannsdóttur fyrir samstarfið og störf þeirra í þágu Vestfjarða um leið og við bjóðum Sölva Guðmundsson og Steinunni Ásu Sigurðardóttur velkomin í hópinn.

Í fréttabréfi ársins stikla margir starfsmenn á stóru yfir sín verkefni á árinu og sjá má á pistlum starfsmanna að ekki hefur verið setið auðum höndum og verkefnin ærin. Ég vil því nota tækifærið og þakka samstarfsfólki mínu á Vestfjarðastofu fyrir þeirra ötula starf á árinu sem er að líða. Stjórn Vestfjarðastofu þakka ég jafnframt gott samstarf á árinu sem er að líða.

Sigríður Ólöf Kristjansdóttir,

framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

DEILA