Vestfirsk stórfyrirtæki: 200 milljarða króna markaðsvirði

Athygli vekur að ýmiss stór fyrirtæki á Vestfjörðum eru ekki á lista Viðskiptablaðsins/Keldunnar yfir fyrirmyndarfyrirtæki. Komin er fram skýring á því að Orkubú Vestfjarða er ekki á listanum. Um er að ræða mistök hjá Skattinum, sem hafa verið leiðrétt en Orkubúið uppfyllir öll skilyrði sem sett eru.

Arnarlax – 15 milljarða króna eigið fé

Þá eru hvorki Arnarlax né Arctic Fish á listanum. Við athugun á fjárhagsupplýsingum þessara fyrirtækja kemur fram að varðandi Arnarlax var fyrirtækið gert upp með tapi árið 2020 upp á tæplega 3 milljónir evra eða um 400 m.kr. Hins vegar varð hagnaður árið 2021 upp á 350 m.kr. Eigið fé fyrirtækisins var um síðustu áramót 107 milljónir evra sem eru um 15 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið er 64%, sem hvort tveggja er langt yfir þeim mörkum sem sett eru fyrir sæti á lista yfir fyrirmyndarfyrirtæki.

Arctic Fish – 14 milljónir kr eigið fé

Varðandi Arctic Fish þá virðast svipaðar skýringar eiga við. Árið 2020 var tap af rekstrinum, en skilyrði er að bæði árin hafi verið um hagnað að ræða. Þá er ársreikning 2021 ekki finna hjá Skattinum. Hins vegar eru þessra upplýsingar aðgengilegar á vefsíðu fyrirtækisins. Seinna árið , 2021 , varð hagnaður samkvæmt ársskýrslu fyrirtækisins 130 milljónir norskra króa eða um 1,8 milljarður króna. Eigið fé Arctic Fish er langt yfir þeim mörkum sem sett eru fyrir fyrirmyndarlistann. Það er nærri 1 milljarður norskra króna eða um 14 milljarða íslenskra króna og eiginfjárhlutfallið er um 67%, en krafist er þess að það sé a.m.k. 20%.

Bæði þessi fyrirtæki eru meðal þeirra stærstu á landinu, sérstaklega þegar horft er til sterkrar eiginfjárstöðu og bæði eru enn í uppbyggingu og hafa ekki náð þeim árlegu tekjum sem framleiðsluleyfi þeirra eru fyrir. Bæði fyrirtækin eru að fjárfesta fyrir milljarða króna á þessum árum og sýna þrátt fyrir það mjög sterka eiginfjárstöðu og hafa tryggt fjárstreymi næstu árin. Einhvern tíma hefði það þótt vera til fyrirmyndar.

Ískalk – einnig í stórfelldri uppbyggingu

Þriðja fyrirtækið sem ekki er að finna á listanum er íslenska kalkþörungafélagið hf á Bíldudal. Samkvæmt ársreikningum fyrirtækisins fyrir 2020 og 2021 var það gert upp með hagnaði bæði árin. Eigið fé þess var um síðustu áramót 2,3 milljónir evra eða ríflega 300 milljónir króna. Hins vegar virðist eiginfjárhlutfallið hafa verið undir 20% markinu. Eignir eru færðar á 18,1 milljón evra og þar af eru 2,3 skuldlausar sem gerir 13% eiginfjárhlutfall. Það er trúlega skýringin á fjarveru fyrirtækisins á umræddum lista.

Íslenska kalkþörungafélagið stendur einnig í uppbyggingu á Vestfjörðum með milljarða króna fjárfestingu í nýrri kalkþörungaverksmiðju í Súðavík. Framkvæmdir eru hafnar við viðamiklar hafnarframkvæmdir á Langeyri og í framhaldinu verður tekið til við byggingu verksmiðjunnar sjálfrar. Það þarf afl til þessara fjárfestinga og erlendir eigendur fyrirtækisins hafa greinilega trú á uppbyggingu á Vestfjörðum.

Langminnugir muna enn að þegar kalkþörungaverksmiðjan var í undirbúningi var það skoskur banki sem fjármagnaði framkvæmdirnar. Innlendir bankar héldu að sér höndum.

Kerecis – markaðsvirði 90 milljarðar króna

Fjórða fyrirtækið sem ekki er að finna á umræddum lista Viðskiptablaðsins/Keldunnar yfir fyrirmyndarfyrirtæki er Kerecis á Ísafirði. Það er rétt eins og eldisfyrirtækin í uppbyggingu og tekjur ekki komnar í það sem vænta má. Samkvæmt gögnun Skattsins var það gert upp tvö síðustu fjárhagsár með tapi. Fyrra árið 2,6 milljónir USD og í fyrra með 1,9 milljóna USD sem er um 275 m.kr á núverandi gengi. Eigið fé 30.9. 2021 var um 10 milljónir USD eða um 1,5 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið var 43%. Tekjur 2020 voru 17 milljónir USD, 2021 voru þær 29 milljónir USD og skv. nýlegri frétt á bb.is 72 milljónir USD á fjárhagsárinu 2022 sem lauk 30. september 2022. 

Í sumar lauk viðbótafjármögnun hjá Kerecis og sótti fyrirtækið 100 milljónir USD með sölu á nýju hlutafé. Fram kom þá í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu að markaðsvirði þess væri þá um 90 milljarðar króna.

Niðurstaðan af þessari samantekt er að þótt listinn yfir fyrirmyndarfyrirtæki sé athugaverður fyrir það hversu mörg vestfirsk fyrirtæki eru á honum , að þá segir hann ekki alla söguna. Skilyrðin, sem sett eru, eiga ekki vel við öflug fyrirtæki sem eru í mikilli uppbyggingu. Það veldur því að fyrirmyndarlistinn segir ekki alla söguna um stöðu atvinnufyrirtækja á Vestfjörðum.

Erlent fjármagn er drifkrafturinn

Vel flest af stærstu og öflugustu fyrirtækjum fjórðungsins eru ekki á listanum, en uppbyggingin sem þau standa fyrir í fjórðungnum er fordæmalaus síðustu áratugina a.m.k. Þau eru að fjárfesta fyrir tugi milljarða króna í fjórðungnum í atvinnuuppbyggingu og ætla má að markaðsvirði þeirra sé um 200 milljarðar króna. Framundan er framfaraskeið í fjórðungnum þar sem ný störf verða talin í hundruðum.

Það eru náttúrulegar aðstæður til lands og sjávar ásamt fjölbreyttum byggðarlögum sem draga að fjárfesta með þekkingu og tiltrú á svæðinu. Það er líka staðreynd, sem vert er að taka eftir, að miklu leyti um er að ræða erlent fjármagn. Norskt fjármagn hefur drifið áfram uppbyggingu í laxeldinu, en nú eru innlendir aðilar farnir að fjárfesta í því. Þannig er Síldarvinnslan ehf næststærsti eignaraðili í Arctic Fish, Háafell er í eigu Hraðfrystihússins Gunnvör hf og innlendur verðbréfasjóður hefur eignast meirihluta í tveimur minni eldisfyrirtækjum við Djúp.

Án erlends fjármagns og þekkingar Norðmanna væru ekki uppgangstímar á Vestfjörðum.

Höfum það í huga.

-k

Uppfært kl 12:48: markaðsvirði Kerecis er 620 milljónir USD sem jafngildir 90 milljörðum m.v. gengi í dag. Millifyrirsögn er breytt til samræmis við það.