Fjórðungssamband Vestfirðinga setur fram skýra kröfu um virkjun á Vestfjörðum, fyrir hönd sveitarfélaganna á Vestfjörðum, í umsögn sinni um fjárlagafrumvarp næsta árs. Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu og Fjórðungssambandsins segir það eindreginn vilja sambandsins að auka raforkuframleiðslu á Vestfjörðum um minnst 20MW. Að því eru nokkrar leiðir, segir hún, og bendir á tvo virkjanakosti í nýsamþykktum Ramma 3, bæði Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal og Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði auk smærri virkjanakosta.
Í ýtarlegri umsögn Fjórðungssambandsins segir að krafa sveitarstjórna sé og hafi verið að stjórnvöld horfi til þess, að eftir langvarandi samdráttarskeið á Vestfjörðum eigi stjórnvöld að setja í forgang styrkingu á samkeppnisstöðu Vestfjarða, til jafns við aðra landshluta er varðar samgöngur, fjarskipti og orkumál.
Varðandi orkumálin er vísað til skýrslu starfshóps umhverfis, orku og loftlagsráðherra um orkumál á Vestfjörðum frá því í apríl síðastliðnum, sem leggur fram samþætta áætlun um, uppbyggingu flutningskerfis raforku, uppbyggingu dreifikerfis og aukna jarðahitaleit á Vestfjörðum. „Sköpuð verði þannig skilyrði fyrir orkufyrirtæki að nýta virkjanakosti innan Vestfjarða. Aukin orkuframleiðsla með virkjum með að lágmarki 20 MW, mun gjörbylta öryggi í afhendingu raforku innan Vestfjarða. Aukin framleiðsla mun jafnt bæta kerfislegan vanda sem Vesturlína skapar í dag og verða um leið áfangi í tvöföldun Vesturlínu við meginflutningskerfi landsins.“ segir í umsögninni.
Til viðbótar við virkjunarkostina sem eru í rammaáætluninni, Austurgilsvirkjun og Hvalárvirkjun, þá hefur Orkubú Vestfjarða áhuga á svonefndri Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði við Flókalund, en hún gæti verið 20 – 30 MW.