Háskólasetur Vestfjarða stofnar stúdentagarða

Halldór Halldórsson, stjórnarformaður Stúdentagarðanna.

Háskólasetur Vestfjarða stofnaði þann 16. ágúst sl. húsnæðissjálfseignarstofnun (Hses) Stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða.

Háskólasetrið kom á fót fulltrúaráði fyrir Hses og það kaus stjórn og hefur hún haldið þrjá fundi nú þegar. Halldór Halldórsson formaður stjórnar segir að það þurfi að vinna hratt til að framfylgja þeirri vinnu sem Háskólasetrið hafði unnið fram til stofnunar Hses. En það var að tryggja staðsetningu, hönnun íbúða (samningur við arkitekta), staðfesting Hms og Ísafjarðarbæjar á stofnframlögum að uppfylltum skilyrðum sem verið er að vinna að o.s.frv.

Í stjórninni eru : Halldór Halldórsson formaður, Hildur Dagbjört ritari og varaformaður, Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir gjaldkeri og Karl Ásgeirsson mun sitja stjórnarfundi þó hann sé varamaður.

Halldór segir að það þurfi allar hendur á dekk því vilji stjórnar standi til þess að klára verkefnið á næstu 12-18 mánuðum. „Og verkefnið er bygging 40 stúdentaíbúða við Fjarðarstræti.“

Nú standi yfir skráningar og ýmis formsatriði. „Við erum að líta í kringum okkur eftir framkvæmdastjóra sem getur komið af fullum krafti í hlutastarfi inn í þetta tímabundna verkefni.“

DEILA