Arctic Fish: 526 kr. framlegð af hverju kg af eldislaxi

Fram kemur í fjárhagslegum upplýsingum Arctic Fish, sem birtar voru í gær að meðalverð á seldu kg af eldislaxi á öðrum ársfjórðungi þessa árs var 84.6 norskar krónur og framleiðslukostnaðurinn var 47,7 norskar krónur. Mismunurinn eða framlegðin var 36,8 NOK af hverju kg sem samsvara 526 íslenskum krónum. Laxinn er seldur heill og slægður og meðalverðið á ársfjórðungnum var um 1.208 krónur íslenskar fyrir hvert kg. Framleiðslukostnaðurinn umreiknaður í íslenskar krónur var um 682 kr. Verðið á eldislaxinum er mun hærra en verð á þorskinum, mikilvægustu fisktegund landsins.

Alls var slátrað 1.029 tonnum á öðrum ársfjórðungi, sem er 44% minna en á sama tíma á síðasta ári. Skýringanna er að finna í miklum laxadauða sem varð í kvíum fyrirtækisins í Dýrafirði í byrjun ársins. Tekjurnar voru nærri 1,4 milljarðar króna. Tap varð á rekstrinum á fyrri hluta ársins um liðlega 200 milljónir króna í stað um 100 milljóna króna hagnaðar á fyrri hluta síðasta árs.

Alls var slátrað 5.250 tonnum á fyrri hluta ársins og þess er vænst að 10.600 tonnum verði slátrað á árinu. Í lok júní voru tæp 6.000 tonn af eldislaxi í kvíum fyrirtækisins að meðalþyngd hvers fisks var 1,7 kg.

1,4 milljarðar króna í fjárfestingu

Alls var varið 1,4 milljörðum króna ( 97 milljónum norskra króna) í fjárfestingu í ársfjórðungnum. Verið er að stækka seiðaeldisstöð fyrirtækinsins í Tálknafirði og að byggja sláturhús í Bolungavík. Seiðaeldisstöðin mun kosta nærri 4 milljarða króna og fjárfestingin í Bolungavík er af svipaðri stærðargráðu.

Frá framkvæmdunum í Bolungavík.

Eigið fé nærri 15 milljarðar króna

Eignir Arctic Fish í lok júní eru um 1,5 milljarður norskra króna sem jafngildir um 21,5 milljarði íslenskra króna. Þar af eru um 65% hrein eign eða nálægt 15 milljörðum króna.

Fyrirtækið hefur framleiðsluleyfi fyrir 21.800 tonnum af frjóum laxi og 5.300 tonnum af regnbogasilungi. Óafgreidd er umsókn Arctic Fish um 4.800 tonna eldi í Ísafjarðardjúpi og sótt hefur verið um að breyta leyfinu fyrir regnbogasilungi í leyfi fyrir lax.

DEILA