Vegagerðin: yfirlitsáætlun um jarðgangakosti – 61 eða 73 mja. kr.

Vegagerðin hefur birt yfirlitsáætlun um þá jarðgangakosti sem hafa verið til umræðu og skoðunar undanfarin misseri og má líta á þá áætlun sem grunn að frekari greiningu og samantekt á þeim athugunum sem hafa verið gerðar til þessa. Alls er um að ræða 23 mismunandi jarðgangakosti, 18 á landsbyggðinni og 5 á höfuðborgarsvæðinu. 

Af þeim eru sjö jarðgangakostir á Vestfjörðum. Það eru Klettháls, Miklidalur, Hálfdán, Dynjandisheiði, Breiðadalsleggur, breikkun, Ísafjörður – Súðavík og stutt göng á Súðavíkurhlíð.

Heildarkostnaður við þessa 6 kosti á Vestfjörðum er 61 eða 73 milljarðar króna eftir því hvor kosturinn er valinn til Súðavíkur. Til samanburðar þá er talið að næstu göng, Fjarðarheiðargöng á Austurlandi, kosti um 45 milljarða króna.

Vegagerðin fékk Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) til að skoða þessa 18 jarðgangakosti á landsbyggðinni með tilliti til arðsemi, umferðaröryggis, tengingar atvinnu -og búsetusvæða ásamt byggðaþróun. Höfundar hennar eru þeir Hjalti Jóhannesson og Jón Þorvaldur Heiðarsson.

Greiningin byggir að mestu á fyrirliggjandi gögnum og þeim upplýsingum um jarðgangakostina sem koma fram í yfirlitsáætlun Vegagerðarinnar.

Í greinargerð RHA er sett fram einkunnagjöf einstakra jarðgangakosta og metin áhrif þeirra á mögulega byggðaþróun og/eða tengingu atvinnu- og búsvæða. Sú einkunnagjöf tekur m.a. mið af styttingu vegalengda, jarðgöng í stað fjallvega sem bæta samgöngur sérstaklega að vetrarlagi o.s.frv.  Þá er metin arðsemi af fjárfestingu í einstökum jarðgangakostum þar sem ábati í formi ferðatíma, styttri vegalengda og aukins umferðaröryggis er veginn á móti kostnaði. 

Í greinargerð RHA er ekki tekin afstaða til hvaða áhersla eigi að vera efst eða hvert vægi einstakra þátta er, heldur er reynt að meta hlutlægt hvern jarðgangakost fyrir sig út frá sambærilegri og viðurkenndri aðferðafræði.   

Kostnaðarmat einstakra jarðgangakosta er því nokkuð gróft og byggir á reynslutölum frá nýlegum verkefnum fyrir jarðgangagerð, vega- og brúargerð. Óvissa getur því verið töluverð fyrir einstaka jarðgangakosti. Greiningarvinna vegna skýrslunnar fór fram að mestu síðari hluta árs 2021 og er því kostnaðarmat sett fram á verðlagi ársins 2021. Frá þeim tíma hafa orðið töluverðar breytingar á verðlagi framkvæmda sem m.a. má rekja til hækkana á heimsmarkaðsverði á hrávöru og olíu og ber að hafa í huga við túlkun á kostnaði við einstakar framkvæmdir.  Það ætti þó ekki að raska innbyrðis röðun framkvæmdanna með tilliti til arðsemi.