Ísafjarðarbær uppfyllir ekki lágmarksviðmið um fjármálastöðu

Fram kemur í bréfi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, EFS, að Ísafjarðarbær uppfyllir ekki lámarksviðmið eftirlitsnefndarinnar um fjármálastöðu.

Í bráðabirgðaákvæði VII í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 er sveitarstjórnum heimilað að víkja frá skilyrðum um jafnvægisreglu og skuldareglu út árið 2025 og bendir EFS sveitarstjórn á að árið 2026 þarf að uppfylla framangreind skilyrði.

Eftirlitsnefndin leggur áherslu á það við sveitarstjórn að nauðsynlegt sé að fara vel yfir fjárhagslegar
forsendur sveitarfélagsins til að ná framangreindum lágmarksviðmiðum.

Nettóskuldahlutfall Ísafjarðarbæjar er nokkuð hátt eða sem svarar 153,6% af tekjum ársins. Við svo hátt skuldastig eru lágmarksviðmið eftirlitsnefndarinnar eins og sést í miðdálki efri myndarinnar. Á neðri myndinni sést að nokkuð vantar upp á að Ísafjarðarbær nái þeim lágmarksviðmiðum.

Gert er ráð fyrir að rekstrarafkoma sé jákvæð en hjá Ísafjarðarbæ var hún í fyrra neikvæð um 396 m.kr eða -6,9% af tekjum. Þá er veltufé frá rekstri ekki nógu hátt og þyrfti að hækka um 50% til þess að duga fyrir afborgunum lána og skuldbindinga. Endurgreiðslutími skulda sem EFS miðar við er 20 ár en er ekki nema 12,6 ár hjá Ísafjarðarbæ.

Samið við KPMG

Í bókun bæjarráðs í framhaldi af bréfi eftirlitsnefndarinnar segir:

Bæjarstjórn hefur gert samning við KPMG um heildræna árangursstjórnun í fjármálum til að takast á við erfiða fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og leggur áherslu á að það verkefni verði unnið fljótt og vel. Í þriggja ára fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar er stefnt að því að uppfylla lágmarksviðmið Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga þegar bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga falla úr gildi í lok árs 2025.

DEILA