Betra skipulag á skipulaginu

Skipulagið ákvarðar hvernig sveitarfélag við viljum; hver má byggja hvað og hvenær. Starfsfólk á skipulags- og eignasviði þarf að fá frið og stuðning til að sinna sínum störfum svo sómi sé að. Góð stjórnsýsla þarf ekki að vera dýr, en of mikill sparnaður skilar verri stjórnsýslu. Með samvinnu er hægt að bæta málsmeðferðartíma talsvert.

Í aðalskipulaginu lítum við fram á veginn og gerum raunhæfar tillögur um hvernig firðirnir okkar og eyrarnar eiga að líta út. Klára þarf vinnu við aðalskipulag sem tekið hefur allt of langan tíma og fara í að gera svæðisskipulag með Vestfjarðastofu. 

Með skipulegum vinnubrögðum má til dæmis komast hjá því að vekja reiði og undirskriftasafnanir eins og gerðist með stækkun eyrarinnar í Skutulsfirði til norðurs. Skýrsla Verkís sem kynnt var á dögunum sýnir að aðrir kostir eru betri en sá sem lagt var upp með í upphafi.

Á kjörtímabilinu skrifaði ég hjólastefnu sem fékkst samþykkt í íþrótta- og tómstundanefnd og bæjarstjórn. Stefnan hefði allt eins getað heitið Stefna um betri samgöngur fyrir fólk á reiðhjólum, rafskutlum, rafmagnshlaupahjólum, hjólastólum, tveimur jafnfljótum og smærri farartækjum. Það er hins vegar markmiðið; að götur og stígar bæjarins séu aðgengilegir fyrir alla. Þannig minnkum við kolefnissporið, hreyfum okkur meira, aukum ferðafrelsi fólks á öllum aldri og bætum bæjarbraginn með því að hittast meira og spjalla.

Gylfi Ólafsson

oddviti Í-listans

DEILA