Vesturbyggð: setur upp heimastjórnir

  Patrekshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

  Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur staðfest breytingar á bæjarmálasamþykkt sveitarfélagsins sem setur á fót þrjár heimastjórnir í Vesturbyggð eftir næstu sveitarstjórnarkosningar.

  Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar segir um ástæðu þess að ráðist var í breytingarnar vera þá að „við viljum auka íbúalýðræði fyrst og fremst. Fá fleiri að ákvörðanatöku í sínu nærumhverfi, teljum að með þessu færumst við skrefi nær því að klára sameiningu sveitarfélagsins sem var gerð 1994.“ Iða Marsibil telur að helsti ávinningurinn verði á sviði skipulagsmála.

  Heimastjórnirnar verða á Patreksfirði í Arnarfirði og sameiginlega í Barðastrandarhreppi og Rauðasandshreppi.

  Valdmörk heimastjórna miðast við sveitarfélagsmörk Patrekshrepps, Bíldudalshrepps, Barðastrandahrepps og Rauðasandshrepps við sameiningu sveitarfélaganna fjögurra 10. júní 1994.

  Heimastjórnir skulu skipaðar þremur fulltrúum.
  Tveir fulltrúar og tveir til vara í heimastjórn skulu kosnir beinni kosningu við sveitarstjórnarkosningar. Framkvæmd kosningarinnar er þannig að hver kjósandi kýs einn aðalmann í heimastjórn. Þeir tveir einstaklingar sem fá flest
  atkvæði eru kjörnir. Einn fulltrúi og annar til vara eru tilnefndir af bæjarstjórn og skulu þeir vera aðalfulltrúar í bæjarstjórn Vesturbyggðar. Bæjarstjórn kýs formann úr hópi kosinna aðalmanna.

  Heimastjórn annast þau störf sem sveitarstjórn felur henni og snýr að viðkomandi byggðahluta. Heimastjórnir hafa vald til fullnaðarafgreiðslu mála.
  Heimastjórn afgreiðir, eftir umfjöllun umhverfis- og framkvæmdaráðs, tiltekin verkefni skipulagslaga nr. 123/2010 án staðfestingar sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga, þ.m.t. um deiliskipulag á hafnarsvæðum.
  Heimastjórn afgreiðir tiltekin verkefni laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 án staðfestingar sveitarstjórnar.
  Heimastjórn fer með verkefni náttúruverndarnefndar skv. 14. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.
  Heimastjórn skal fá til umsagnar tillögur um breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins innan sinna staðarmarka.

  Þá fer heimastjórn með afréttarmálefni, fjallskil og fleira og fjallar um jarðamálefni, auk þess að fara með umsjón menningarverkefna, félagsheimila, menningarhúsa, og tjaldstæða í viðkomandi byggðahluta, þar sem það á við.

  Heimastjórnirnar munu taka til starfa 1. október 2022.

  Breytingarnar voru samþykktar samhljóða í bæjarstjórninni.

  DEILA