Hvað er heimastjórn?

Ísafjarðarbær er  fjölkjarna– og víðfeðmt  sveitafélag með misstórum þéttbýlisstöðum og dreifbýli. Nú eru að verða þrjátíu ár síðan að sex sveitarfélög voru lögð saman í eitt.  Við sameiningu sveitarfélagana var horft til þess að styrkur sveitarfélagsins byggðist á einu stóru þéttbýli þar sem stjórnsýslan sæti og miðstöð þjónustunnar yrði og minni staðirnir nytu svo góðs af. Við sjáum það nú að þróunin hefur orðið sú að  það hefur myndast rof í samskiptum þorpanna og dreifbýlisins við stjórnsýsluna á Ísafirði, rof sem hverfisráðin, sem sett hafa verið á fót, geta ekki lagað því þau hafa engan rétt til ákvarðanatöku. Þetta hefur ýtt undir óánægju, vantraust og sundrung í okkar sveitarfélagi og mín reynsla sem formaður Hverfisráðs Súgandafjarðar veitti mér innsýn í hvernig stjórnsýslan hefur ekki nægilega góða sýn á vandamál þorpanna og dreifbýlis í sveitarfélaginu. Þessi óánægja stafar af því að boðleiðir á milli byggðakjarna eru langar, samtalið er stirt og ákvarðanir um skipulagsmál oft tekin án samráðs við íbúa þess kjarna er um ræðir.

Heimastjórn með ábyrgð og skyldur

Múlaþing er nýlega sameinað sveitarfélag fyrir austan sem varð til úr fjórum sveitarfélögum. Ég hef kynnt mér vel fyrirkomulag þeirra við að efla lýðræðisþátttöku allra íbúa sveitarfélagsins. Stjórnsýsla þeirra er byggð í kringum heimastjórnir sem starfa á hverjum stað og taka ákvarðanir um málefni sem snúa að hverjum byggðakjarna fyrir sig. Í heimastjórn sitja tveir kjörnir fulltrúar úr sinni byggð og einn fulltrúi skipaður af sveitarfélaginu sem fer með formennsku í stjórninni. Heimastjórnin tekur síðan ákvarðanir um þau málefni er snúa að sínum kjarna. Málefni er varða skipulagsmál, umhverfis- og náttúruverndarmál, menningarmál og störf sem sveitarstjórnin felur henni án þess þó að skuldbinda sveitarfélagið.

            Við getum auðveldlega borið okkur saman við Múlaþing. Þar búa 70% íbúa í Fljótsdalshéraði rétt eins og 70% íbúa Ísafjarðarbæjar búa í Skutulsfirði. Heimastjórn var komið á til þess að koma í veg fyrir of mikla stýringu frá stærsta byggðarlaginu á kostnað hinna minni og til að varðveita menningu og sérstöðu hvers kjarna fyrir sig. Það eru vandamál sem við erum að eiga við í Ísafjarðarbæ. Reynslan af þessu stjórnkerfi fyrir austan sýnir vel hvernig stjórnsýslan verður skilvirkari.

Síðustu kjörtímabil hefur bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ekki endurspeglað landslag sveitarfélagsins. Kosningakerfið í dag bíður ekki upp á þann möguleika að ná inn í sveitarstjórn einstaklingum frá öllum byggðakjörnum jafnt, en með því að færa ákvarðanatöku til heimastjórnar hvers staðar fyrir sig er hægt að búa til vettvang þar sem hægt er að gera framtíðarstefnu fyrir hvern kjarna fyrir sig og síðan framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið í heild. Því vissulega erum við eitt sveitarfélag en mikilvægt er að huga að því að hver kjarni á sér sína sérstöðu, sögu og menningu og á rétt á því að varðveita hana og setja sér eigin stefnu líka.

Einn Ísafjarðarbær

Mín kynslóð þekkir ekki annað en að búa í Ísafjarðarbæ, eitt sveitarfélag og vill efla það sem eina heild. En við verðum að efla lýðræði allra íbúa jafnt svo við stöndum undir nafni.

            Heimastjórnir í alla firði er mikilvæg skref til að efla lýðræði allra íbúa jafnt og stefna okkar sem sitjum lista Framsóknar við komandi sveitastjórnarkosningar. Það þarf líka heimastjórn á Ísafirði sem  til að huga að sínum hagsmunamálum og varðveita sína sérstöðu jafnt á við hin svæðin. Ef Ísafjörður fær það rými innan heimastjórnar að huga að sínum hagsmunamálum utan sveitarfélagsins sem heildar og hin þorpin fá það líka getum við skapað sveitarfélag þar sem ríkir meiri sátt, minni rígur, meira traust og meiri samheldni.

Samvinna og traust

            Eitt að lokum, sýnum gott fordæmi því ef við viljum frekari sameiningu sveitarfélaga á svæðinu þá þurfum við að vinna í að efla traust og eyða sundrung innan okkar sveitarfélags. Ef við viljum bjóða nærliggjandi sveitarfélögum að borðinu og ræða sameiningu sveitarfélaga þá þurfum við að horfa til þess að þau sveitarfélög geta óttast það að missa ákvörðunarrétt um sinn bæ. Bjóðum þeim nútímalegri stjórnsýslu, bjóðum þeim að halda réttinum til að taka ákvarðanir um sín skipulagsmál og menningu.

Bjóðum þeim heimastjórn.

Sædís Ólöf Þórsdóttir

Höfundur skipar þriðja sæti Framsóknar í Ísafjarðarbæ.

DEILA