Vegagerðin: samfélagsleg áhrif Álftafjarðarganga metin

Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Vegagerðin vinnur að því að meta samfélagsáhrif 18 jarðgangakosta. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki vorið 2022.

Þetta kemur fram í svörum Innviðaráðherra við fyrirspurn Lilju Rafney Magnúsdóttur, varaþingmanns um fyrirhuguð Álftafjarðargöng.

Unnið er að heildstæðri greiningu á jarðgangakostum á Íslandi í samræmi við samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024. Er gert ráð fyrir að valkostir verði metnir með tilliti til fýsileika, kostnaðar og félagshagfræðilegs ábata. Á grunni þeirrar greiningar verður síðan gerð tillaga um forgangsröðun jarðgangakosta til lengri tíma sem tekin verður til umfjöllunar við gerð nýrrar samgönguáætlunar.
Vegagerðin gaf út yfirlitsáætlun jarðganga í júlí 2021 þar sem gerð er grein fyrir athugunum á alls 18 jarðgangakostum utan höfuðborgarsvæðisins. Í áætluninni eru tilgreind ellefu jarðgangaverkefni sem mælt er með að tekin verði fyrst til nánari skoðunar. Álftafjarðargöng eru þeirra á meðal. 

Lilja Rafney spurði einnig að því hver væru samlegðaráhrif hvað heildarkostnað varðar með lagningu nýs rafstrengs og ljósleiðara um Álftafjarðargöng og sparnaðar vegna notkunar varaafls vegna bilana á byggðalínu til Súðavíkur í samanburði við kostnað við endurbyggingu þessara innviða við núverandi aðstæður. Þær upplýsingar liggja ekki fyrir en ráðherrann svaraði því til að slík kostnaðarábatagreining yrði hluti af heildarmati á gangagerðinni.

Ráðherrann gerir ráð fyrir að gert ráð fyrir því að tillaga til þingsályktunar um nýja samgönguáætlun fyrir árin 2023–2037 verði lögð fyrir Alþingi haustið 2022.

Lilja Rafney segir að henni finnist sérstakt að ekki eigi sérstaklega að meta fýsileika Álftafjarðargangna í endurskoðaðri jarðgangnaáætlun út frá öryggissjónarmiðum.

Listi yfir 18 jarðgangahugmyndir

https://www.vegagerdin.is/vegakerfid/jardgong/

DEILA