Við Íslendingar teljum okkur búa við gott velferðarkerfi og berum okkur í því sambandi oft saman við frændur okkar á Norðurlöndum. Okkur er tamt að halda því fram að við séum oft og iðulega best meðal þjóða. Þessi tilhneiging kom ekki síst fram á fyrstu árum þessarar aldar og allt fram að hruni fjármálamarkaðanna haustið 2008.
Eitt af því sem einkennir gott velferðarþjóðfélag er hvernig er búið að eldri borgurum og öryrkjum, m.a. hversu traust lífeyriskerfið er og hvort almenn sátt ríki meðal þjóðarinnar um þennan mikilvæga þátt í velferðarkerfinu. Það er skoðun margra, ekki síst eldri borgara og öryrkja að núverandi lífeyriskerfi sé ósanngjarnt og að sú breyting sem var gerð á lögum um almannatryggingar haustið 2006 hafi verið mistök og í engu samræmi við þau fyrirheit sem gefin voru við stofnun almennu lífeyrissjóðanna árið 1969. Skal nú vikið að þeim aðdraganda öllum því hann skiptir miklu máli í dag.
Lífeyrissjóðir í kjölfar kreppunnar
Árið 1969 ríkti hér á landi mikil efnahagsleg kreppa sem má rekja til hruns síldarstofnsins og mikils verðfalls fiskafurða á erlendum mörkuðum. Hér ríkti mikið atvinnuleysi og landflótti, sérstaklega til Norðurlanda, einkum til Svíþjóðar. Með hliðsjón af bágu efnahagsástandi og atvinnuleysi er ekki út í hött að spurt sé hvers vegna í ósköpum verkalýðshreyfingunni hafi dottið hug að stofna og starfrækja lífeyrissjóði við þessar aðstæður?
Hér kemur margt til álita því krafan um stofnun lífeyrissjóða var ekki uppi á borðinu hjá Alþýðusambandi Íslands í ársbyrjun 1969. Í mastersritgerð Sigurðar E. Guðmundssonar í sagnfræði, sem heitir „Lífeyrissjóðir 1960-1980“, er fjallað nokkuð ítarlega um tildrög þess að samið var um almennu lífeyrissjóðina í maí 1969. Hér skal sú atburðarás ekki rakin að öðru leyti en því að hugmynd þess efnis til lausnar kjaradeilunnar kom til umræðu í sérstakri sáttanefnd í marsmánuði á því sama ári. Eins og oft vill verða í kjaradeilum getur tillagan hafa fæðst í flóknum samningaviðræðum einstakra samningamanna. Nú er rúm hálf öld liðin frá þessum atburðum og fáir enn á lífi sem sátu við samningaborðið, en þó er þörf á því að rifja upp umræður og ákvörðun um sérstakan viðbótarlífeyri í Svíþjóð, Danmörku og Noregi, sem samþykkt var á þjóðþingum viðkomandi landa sem viðbót við almannatryggingalögin, en ekki með stofnun lífeyrissjóða sem var reyndin hér á Íslandi.
ATP á Norðurlöndum
Umræður um sérstakan viðbótarlífeyri við grunnlífeyri almannatrygginga hófust í Svíþjóð árið 1957 og náði loks fram að ganga á þjóðþinginu 1960. Um var að ræða tekjuháðan og sjóðsmyndandi lífeyri fyrir alla launþega, sem kæmi til viðbótar grunnlífeyri almannatrygginga. Danir fylgdu í kjölfarið árið 1964 og síðan Noregur 1967. Þetta viðbótarkerfi fékk alls staðar í þessum löndum skammstöfunina ATP (Arbejdsmarkedets Tillægspension). Á síðustu öld réðu jafnaðarmenn lögum og lofum á Norðurlöndum og voru því í forystu við uppbyggingu velferðarkerfa þessara landa. Hér á landi var hið pólitíska landslag með öðrum hætti. Alþýðuflokkurinn íslenski var aldrei ráðandi stjórnmálaafl eins og jafnaðarmannaflokkarnir á Norðurlöndunum. Meginástæðan var klofningur Alþýðuflokksins og stofnun Sósíalistaflokksins 1938. Sá flokkur var lagður niður með stofnun Alþýðubandalagsins sem stjórnmálaflokks árið 1968. Þó að Alþýðuflokkurinn hafi haft áhuga á að starfrækja svipað fyrirkomulag innan almannatrygginga með viðbótarlífeyri, eins og frændur okkar á Norðurlöndum með ATP kerfunum, varð mönnum fljótlega ljóst að hér á landi yrði farin sú leið að til viðbótar grunnlífeyris almannatrygginga kæmi sérstakur ellilífeyrir frá lífeyrissjóðunum, eins og var raunin með stofnum lífeyrissjóða fyrir almennt verkafólk.
Blekið var varla þornað af undirskrift samninganna þann 19. maí 1969 þegar menn hófust handa við að undirbúa stofnun sjóðanna enda átti starfræksla þeirra að hefjast í ársbyrjun 1970. Eitt voru menn strax einhuga um og það var að ávinnsla lífeyrisréttinda yrði sú sama hjá öllum nýju lífeyrissjóðunum og að semja þyrfti því sérstaka fyrirmyndarreglugerð eða samræmda reglugerð um uppbyggingu lífeyrissjóðanna og sams konar lífeyrisréttindi og ávinnslu þeirra.
Samræmd lífeyrisréttindi
Til verksins var ráðinn Guðjón Hansen tryggingastærðfræðingur. Hann samdi tillögurnar sem urðu að veruleika með ATP viðbótarlífeyriskerfi Danmerkur að leiðarljósi. Þessi staðreynd kemur bæði fram í doktorsritgerð Ólafs Ísleifssonar um íslensku lífeyrissjóðina og einnig í umræddri MA ritgerð Sigurðar E.Guðmundssonar og þarf þá ekki lengur vitnana við að íslensku lífeyrissjóðirnir koma sem viðbót við grunnlífeyri almannatrygginga, en ekki í staðinn fyrir grunnlífeyririnn.
Við þetta er svo að bæta að árið 1971 var tekin upp sérstök tekjutrygging. Hún var ekki með neinum frítekjumörkum. Allar tekjur skertu fjárhæð tekjutryggingarinnar. Það var sífelld barátta Alþýðusambands Íslands að hækka frítekjumarkið, stóð sú barátta allar götur þar til frítekjumörkin voru nánast lögð niður frá og með 1. janúar 2017. Má því segja að verkalýðshreyfingin sé komin aftur á byrjunarreit.
Sú breyting var einnig gerð haustið 2016 að grunnlífeyrinum og tekjutryggingunni var steypt saman í einn bótaflokk, sem nefnist nú ellilífeyrir. Þessi aðgerð var hugsuð sem einföldun á bótakerfinu, en hefur haft í för með sér að slóð grunnlífeyrisins er nú hulin. Það er bagalegt þegar gerð er sú sanngjarna krafa að lífeyrissjóðatekjur skerði ekki grunnlífeyrinn, eins og nú er gert. Hér má bæta við að lífeyrir almannatrygginga hefur ekki hækkað í samræmi við launatekjur, eins og vonir voru bundnar við.
Þróun skerðingar
Grunnlífeyrir almannatrygginga var ótekjutengdur frá 1936 til ársins 1992 þegar atvinnutekjur skertu grunnlífeyrinn. Lífeyrissjóðatekjur skertu grunnlífeyrinn 2009 til 2013. Frá ársbyrjun 2017 hafa hins vegar lífeyrissjóðatekjur skert grunnlífeyrinn í nýjum bótaflokki, ellilífeyrir, eins og framan greinir. Afleiðingin er sú að þúsundir eldri borgara hafa ekki fengið tilskilinn lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins allt frá því að ný lög um almannatryggingar tóku gildi í ársbyrjun 2017.
Lokaorð
Þessi greinarskrif mín um aðdragandann að stofnun almennu lífeyrissjóðanna í ársbyrjun 1970 gæti alveg eins heitið „Hyldýpi gleymskunnar“. Ávinnsla lífeyrisréttinda spannar starfsævi allra launamanna hér á landi. Það skiptir því öllu máli að trúverðugleiki lífeyriskerfisins byggi á trausti. Þeir sem fjalla um þetta mikla hagsmunamál þjóðarinnar verða að kynna sér söguna því að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um endurmat almannatrygginga. Nú er rétti tíminn að fara í þá endurskoðun og laga augljósa agnúa, en þá verða menn líka að kynna sér augljósar sögulegar staðreyndir áður en þær verða gleymskunni að bráð, þ. á m. að lífeyrissjóðir sem stofnaðir voru fyrir 1970 voru einnig hugsaðir sem viðbót við almannatryggingar.
Hrafn Magnússon
Höfundur er fyrrv. framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða