Fyrsti T137 hrúturinn fundinn á Stóru-Hámundarstöðum

Austri, fyrsti hrúturinn sem finnst með T137 hér á landi. Mynd: Rml.is.

Svo skemmtilega vill til að arfgerðin T137 hefur nú loks fundist í hrút. Hrútur þessi er frá bænum Stóru-Hámundarstöðum á Árskógsströnd við Eyjafjörð. Þar reka þau Snorri Snorrason og Brynja Lúðvíksdóttir myndar fjárbú en þau hafa u.þ.b. 350 kindur á vetrarfóðrum. Það er hrúturinn Austri 20-623 sem skartar þessari arfgerð en hann er hvítur að lit og hyrndur.

Austri er hinn álitlegasti kynbótagripur og var sá hrútur búsins sem átti hvað öflugasta sláturlambahópinn sl. haust á búinu segir í frétt á heimasíðu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins

Nú liggja fyrir upplýsingar um 3.500 sýni auk bráðabirgðaniðurstöðu úr um 2.500 sýnum til viðbótar og segir í færslu RML að enn sem komið er hefur arfgerðin ARR ekki fundist annars staðar en á Þernunesi. „Hin mögulega verndandi arfgerð T137 finnst nú á þrem bæjum en áður hafði hún fundist á Sveinsstöðum í Austur-Húnavatnssýslu og á bænum Straumi í Hróarstungu á Héraði,“ segir á heimasíðu RML

DEILA