Vorviður – stuðningur við skógrækt félaga og samtaka

Áhugafólk við gróðursetningu. Mynd: Pétur Halldórsson.

Sem hluti af aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er Skógræktinni falið að efla tengsl við og styðja félagasamtök með sérstöku verkefni. Verkefnið Vorviður er hluti aðgerðaráætlunarinnar og bættrar landnýtingar í þágu loftslags. Umsóknarfrestur um styrk fyrir árið 2022 er 1. mars.

Markmið verkefnisins er að efla samstarf Skógræktarinnar og ýmissa félaga um allt land í því augnamiði að gefa félögum kost á að binda kolefni með eigin skógrækt. Félög sem nota land sem þegar er á skipulögðu skógræktarlandi njóta forgangs. Plönturnar skulu vera ræktaðar í ræktunarstöð og það telst vera kostur ef hún er í heimahéraði. Ekki er um að ræða styrk vegna eigin plöntuframleiðslu.

Stuðningurinn felst í endurgreiðslu kostnaðar við plöntukaup eingöngu. Félög sækja um styrkinn til Skógræktarinnar sem annast umsýslu þessa verkefnis. Sækja þarf um fyrir hvert ár eins og vinnureglur kveða á um.

Úthlutað var í fyrsta sinn úr Vorviði árið 2021 og gengu út 6,8 milljónir króna, sem runnu til 21 verkefnis um allt land.

DEILA