Lögð hefur verið fram á Alþingi í fjórða sinn þriðja Rammaáætlun, sem er áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þar er virkjunarkostum raðað í nýtingaráætlun, verndaráætlun eða biðflokk.
Rammaáætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn áætlunarinnar hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira.
Tveir virkjunarkostir á Vestfjörðum eru flokkaðir í nýtingarflokk. Annars vegar Hvalárvirkjun og hins vegar Austurgilsvirkjun, báðar í Strandasýslu við Ófeigsfjarðarhálendið.
Í rökstuðningi verkefnisstjórnar fyrir tillögu sinni um að þessir virkjunarkostir færu í nýtingarflokk segir um Hvalárvirkjun að engar eða óverulegar breytingar hafi orðið frá verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt var 14. janúar 2013 en þá samþykkti Alþingi virkjunina. Hvalárvirkjun hefur tvisvar á Alþingi verið samþykkt í nýtingarflokk.
Um Austurgilsvirkjun segir :
„Virkjunarkosturinn er inni á svæði sem er óbyggt víðerni samkvæmt lagalegri skilgreiningu, en samkvæmt niðurstöðum faghóps 2 hefði virkjun á svæðinu lítil áhrif á ferðamennsku, beit og veiði. Í ljósi framkominna gagna um gróðurfar, jarðfræði, fuglalíf, vatnalíf og menningarminjar á svæðinu er lagt til að virkjunarkosturinn verði í orkunýtingarflokki.“ Fram kemur í undirgögnum að virkjunarkosturinn hefði lítil áhrif á umhverfið og möguleika til ferðaþjónustu.
Ísafjarðarbær hefur sent umsögn um tillöguna og þar segir að Umhverfis- og framkvæmdanefnd sveitarfélagsins „minnir á virkjanakosti Í Ísafjarðardjúpi sem voru komnir Í biðflokk en eru nú ekki lengur í þingskjali 468/152. Nefndin brýnir Alþingi að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum og koma því í nútímalegt horf.“
Ekki kemur fram í umsögninni hvaða kostir það eru sem voru komnir í biðflokk en ætla má að það séu Hvanneyrardalsvirkjun sem er á Glámuhálendinu og tekur vatnið niður í Ísafjörð, Skúfnavatnavirkjun á Ófeigsfjarðarheiði og Tröllárvirkjun, sem er einnig á Glamuhálendinu en virkjar vatnsfallið niður í Vattarfjörð.