Landsréttur dæmir Ísafjarðarbæ bótaskyldan

Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði.

Á föstudaginn staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóm Vestfjarða frá 2. febrúar 2021 um bótagreiðslur til starfsmanns við umönnun fatlaðs einstaklings, en starfsmaðurinn sem vann í hlutastarfi varðí október 2014 fyrir árás hins fatlaða með þeim afleiðingum að starfsmaðurinn varð fyrir varanlegum líkamstjóni auk andlegs tjóns. Matsmenn töldu varanlega tjónið vera 25% auk þess sem þeir lögðu mat á miskann.

Starfsmaðurinn fékk 2019 greiddar 5,5 m.kr. greiddar úr slysatryggingu launþega og 2,3 m.kr. frá Sjúkratryggingum í lok sama árs.

Sama ár stefndi starfsmaðurinn launagreiðanda fyrir dóm og vísaði um meinta skaðabótaábyrgð launagreiðanda til ákvæðis 7.4.1 í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga frá árinu 2011. Krafðist hann ríflega 30 m.kr. greiðslu, til vara 29,1 m.kr. og til þrautavara 16,6 m.kr. að frádregnum fengnum greiðslum. Munurinn á kröfunum skyrist af mismunandi mati á tekjuviðmiðunum.

Þótti Landsrétti rétt vegna aðstæðna stefnanda að leggja meðalárslaun verkafólks árið 2014 til grundvallar ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku.

Kjarasamningsákvæðið er eftirfarandi: „Starfsmaður sem í starfi sínu sinnir einstaklingi sem að takmörkuðu eða jafnvel engu leyti getur borið ábyrgð á gerðum sínum, á rétt á að beina skaðabótakröfu sinni vegna líkams-eða munatjóns að launagreiðanda. Við mat og uppgjör kröfunnar gilda almennar reglur skaðabótaréttarins.“

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Vestfjarða sem dæmdi starfsmanninum 16,6 m.kr. bætur auk þess sem stefndi var dæmdur til að greiða málskostnað starfsmannsins 2,4 m.kr. Starfsmaðurinn fékk gjafsókn í málinu.

Ekki kemur fram í dómnum hverjum var stefnt, en miðað við að kröfunni er beint að launagreiðanda má ætla að um sé að ræða Ísafjarðarbæ sem annast reksturinn fyrir Byggðasamlag um málefni fatlaðra á Vestfjörðum.

Upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar segir að dómurinn verði kynntur fyrir stjórn BS Vest sem tekur ákvörðun um næstu skref. Ekki er hægt að svara um hvort eða hversu mikill kostnaður fellur á bæjarsjóð fyrr en ákvörðun þeirra liggur fyrir.

Dómurinn var kynntur í bæjarráði í gærmorgun.

DEILA