Þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram í gær tillögu til þingsályktunar á Alþingi þar sem innviðaráðherra er falið að skapa svigrúm fyrir gerð Súðavíkurganga á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi í núgildandi samgönguáætlun 2020– 2034. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um framvinduna fyrir árslok 2022.
Í greinargerð með tillögunni er minnt á að Arna Lára Jónsdóttir hafi flutt sams konar tillögu fyrir tveimur árum og að Guðjón Brjánsson hafi endurflutt hana lítið breytta á síðasta þingi. Flutningsmenn vilja að Súðavíkurgöng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi verði skilgreind sem verkleg framkvæmd á samgönguáætlun 2020–2034 og að þegar verði hafnar ítarlegar rannsóknir og undirbúningur að gerð jarðganganna.
Þá er þörfin fyrir göng rökstudd meðal annars með þessum orðum:
„Gerð Súðavíkurganga er afar brýn út frá byggðasjónarmiðum en ekki síður út frá öryggissjónarmiðum. Á Súðavíkurhlíð eru skilgreindir 22 snjóflóðafarvegir og eru fjölmörg dæmi um snjóflóð og grjóthrun í hlíðinni. Vegagerðin og Snjóflóðasetur Veðurstofunnar fylgjast vel með öllum hættumerkjum og hafa gefið út viðvaranir og lokað hlíðinni ef svo ber undir. Árið 2018 féllu sem dæmi ríflega 60 flóð niður á veg samkvæmt talningu Vegagerðarinnar en bent skal á að fjölmargar viðvaranir og lokanir eru gefnar út á hverjum vetri til að hindra slys á fólki. Íbúar á svæðinu eru stöðugt uggandi um öryggi sitt og hafa bundist samtökunum „Dauðans alvara, Súðavíkurhlíð-Kirkjubólshlíð“ þar sem skipst er á skoðunum og leiðbeiningar og varúðartilkynningar sendar til meðlima.“