Óveður á Vestfjörðum

Óveður er á Vestfjörðum og eru helstu fjallvegir fjórðungsins lokaðir fyrir umferð. Á það við um Hálfdán, Klettháls, Steingrímsfjarðarheiði og Þröskulda. Vegagerðin gefur næst upplýsingar um færðina kl 15 í dag.

Í veðurskeyti frá Vegagerðinni segir að ekki verði miklar breytingar í dag, stormur og blint á fjallvegum, einkum um NV-vert landið. Lægir heldur í kvöld, en áfram skafrenningur og eins mun bæta heldur í ofankomu, norðanlands til morguns.

Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að björgunarsveitir hafi verið kallaðar út seint í gærkvöld og í morgun vegna óveðurs. Engin útköll bárust í nótt en sveitirnar hafa sinnt útköllum m.a. á Bíldudal, Suðureyri og Þingeyri.

Rétt fyrir miðnætti losnaði flotbryggja á Bíldudal. Björgunarsveitarfólk tryggði flotbryggjuna. Í morgunsárið hafa björgunarsveitir byrgt glugga á íþróttahúsinu á Suðureyri sem brotnað höfðu í veðrinu í nótt og á Þingeyri þurfti að veiða upp lausamuni sem fokið höfðu í höfnina.

DEILA