Ísafjarðarbæ vill ekki borga kostnað vegna hæðamismunar lóða

Steypustöðin Ísafirði við Suðurtanga.

Hampiðjan hf, sem hefur fengið úthlutað lóðinni Suðurtanga 14 á Ísafirði og er að hefja þar framkvæmdir við netaverkstæði fór fram á að sveitarfélagið komi að frágangi á milli lóðarinnar og næstu lóðar Suðurtanga 12, þar sem Steypustöðin ehf er með sína starfsemi. Verulegur hæðarmunur er á milli lóðanna og þarf að gera steyptan stoðvegg með fram lóðarmörkum alveg að götu samkvæmt mati Hampiðjunnar og er gert ráð fyrir að sá kostnaður verði um 9 milljónir króna.

Hampiðjan telur að nýbygging sín sé í samræmi við deiliskipulag og að uppsetning stoðveggjar geti ekki talist hluti af því sem vænta má við úthlutun og ekki í samræmi við deiliskipulag.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs kemur fram að hæðamismunur á milli lóða við Suðurtanga 12 og 14 sé um 1cm – 1,2 m. Hann segir að lóðinni hafi verið úthlutað í því standi sem hún er í við úthlutun og það sé á ábyrgð framkvæmdaraðila, að gera lóð byggingarhæfa. „Skilmálar lóðar s.s. hæðarkótar og hæðir, í nánasta umhverfi lágu fyrir áður en framkvæmdir hófust. Því mátti lóðarhafa vera ljóst að grípa til ráðstafana vegna þessa með að jafna út mismun með annað hvort með einhalla eða stoðvegg.“

Sviðsstjórinn telur það ekki á ábyrgð sveitafélagsins að greiða fyrir ákveðnar tæknilausnir sem snúa að frágangi lóða eða mannvirkja. Lagði hann er til við bæjarráð að synja erindinu.

Bæjarráðið fór að tillögunni og hafnaði erindinu.

DEILA