Arnarlax greiddi 118 m.kr. til sveitarfélaga á Vestfjörðum á síðasta ári. Þetta kemur fram í skýrslu félagsins um áhrif þess á samfélögin sem það starfar í ( community footprint). Gjöldin voru 93 m.kr. árinu áður og 58 m.kr. árið 2018. Aukingin á tveimur árum er 103%.
Eins og sjá má af myndinni að neðan sem er úr skýrslunni fóru 95% fjárhæðarinnar til Vesturbyggðar og 5% til Tálknafjarðar.
Langstærstur hluti greiðslunnar voru aflagjöld af lönduðum eldisfiski. Þau námu 77 m.kr. Vörugjöld voru 4,9 m.kr. og önnur hafnargjöld 29 m.kr.
Hafnargjöldin 160 m.kr. alls
Fiskeldisfyrirtækin tvö Arnarlax og Arctic Fish greiddu í fyrra samtals 160 m.kr. í hafnargjöld og þar af 116 m.kr. í aflagjald.
Í fréttatilkynningu frá Samherja í lok október kemur fram að Samherji og Útgerðarfélag Akureyringa, sem er í eigu Samherja, greiddu Hafnarsamlagi Norðurlands og Dalvíkurhöfnum samtals 110,7 milljónir króna í hafnargjöld á síðasta ári. Þau skiptast þannig að 64,9 milljónum króna var greitt til Hafnarsamlags Norðurlands og 45,8 milljónir króna í hafnargjöld til Dalvíkurhafna.
Bæjarins besta innti Katrínu Sigurjónsdóttur, bæjarstjóra í Dalvíkurbyggð eftir því hvort aflagjöld væru innifalin í hafnargjöldunum og segir í svari hennar að um sé að ræða heildargjöld til Dalvíkurhafna.
Samkvæmt þessu fengu sveitarfélögin tvö á sunnanverðum Vestfjörðum mun meira í hafnargjöld af fiskeldinu á síðasta ári en Samherji greiddi til hafna í Eyjafirði.