Töluvert af snjóflóðum á Vestfjörðum

Snjóflóð úr Innra-Bæjargili. Ljósmynd: Jón Magnússon, snjóathugunarmaður hjá Veðurstofunni.

Töluvert af snjóflóðum féll á norðanverðum Vestfjörðum í og eftir hríðarveðrið sem geisaði í gær. Þau stærstu sem frést hefur af féllu í nágrenni Flateyrar og í Súðavíkurhlíð. Einnig féllu minni flóð í Skutulsfirði og Bolungarvík. Engin flóðanna ógnuðu byggð. Flateyrarvegur og vegurinn um Súðavíkurhlíð voru lokaðir á meðan á veðrinu stóð.

Í Önundarfirði féllu þónokkur snjóflóð, m.a. úr Innra-Bæjargili og Skollahvilft ofan Flateyrar. Flóðið úr Innra-Bæjargili fór á efsta hluta varnargarðs og rann smá spöl niður með honum en var þó langt frá því að fara yfir hann. Flóðið úr Skollahvilft náði ekki að varnargarði. Nokkur flóð féllu ofan við Flateyrarveg en engin náðu út á veg. Tvö snjóflóð féllu yfir veginn um Súðavíkurhlíð, úr farvegum sem oft falla flóð úr.

Veðrið er nú gengið yfir, það hefur stytt upp, dregið úr vindi og hlýnað. Hættan á náttúrulegum flóðum er talin að mestu yfirstaðin. Ennþá er þó mögulegt að fólk á ferð í brattlendi setji af stað snjóflóð.

DEILA