Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ verður haldið á hinum ýmsu stöðum á Íslandi og erlendis á morgun laugardaginn 11. september.
Fyrsta Kvennahlaupið var haldið árið 1990. Upphaflega var markmið hlaupsins að fá fleiri konur út að hreyfa sig og að hvetja konur til þátttöku í starfi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þau markmið hafa um margt náðst þar sem konur hreyfa sig mun meira í dag en fyrir 30 árum, íslenskar íþróttakonur eru að ná frábærum árangri á heimsvísu og margar konur í forsvari fyrir íþróttahreyfinguna hérlendis.
Í dag er áherslan ekki hvað síst á samstöðu kvenna, að hver njóti þess að hreyfa sig á sínum forsendum og eigi ánægjulega samverustund með fjölskyldu og vinum.
Hlaupið er árviss viðburður hjá mörgum konum sem taka daginn frá til að hlaupa með dætrum, mæðrum, ömmum, systrum, frænkum og vinkonum sínum og margir karlmenn slást líka í hópinn.
Konur á öllum aldri taka þátt í Kvennahlaupinu, allt frá litlum stelpum í kerrum til langamma þeirra. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og allir eiga að geta fundið vegalengd við sitt hæfi. Það er því engin tímataka í hlaupinu heldur lögð áhersla á að hver komi í mark á sínum hraða, með bros á vör.
Hlaupið verður á eftirtöldum stöðum á Vestfjörðum:
- 380 Reykhólahreppur
- 400 Ísafjörður
- 425 Flateyri
- 430 Suðureyri
- 451 Vesturbyggð, Barðaströnd
- 460 Tálknafjörður
- 470 Þingeyri
- 500 Staður
- 510 Hólmavík
- 520 Drangsnesi